La Chiusa, Ítalía. Kjarnakaffi

Það er að koma meiri ró yfir mig. Ég náði að lesa meira en 200 síður í dag og það er afrek á þessum síðustu eirðarlausu vikum. Ég var minntur á Thomas Tranströmer í dag, sænska skáldið. Njörður P. Njarðvík gaf út mikið safn ljóða þessa þekkta ljóðskálds fyrir nokkrum árum, mörgum ljóðunnendum til stórrar gleði. Annað skáld, Hannes Sigfússon, hefur líka þýtt nokkur af ljóðum Tranströmer og mér er sagt að þær þýðingar hafi komið út fyrir 45 árum. Ég á nú bágt með að trúa þvi, en þetta er líklega rétt, því ég man að ég keypti bókina Norræn ljóð, þar sem ljóðaþýðingar Hannesar birtust,  í undarlegri bókabúð á baklóð við Laugaveginn, og það var árið 1979. Ég gekk í bókmenntatíma í MH hjá Sigga Svavars. Ég var samviskusamur nemandi og keypti allar bækur sem Siggi benti á. Ég las hin norrænu ljóð en náði ekki alveg samband við ljóðlistina á þessum árum. Þegar Siggi hætti kennslu í MH gerðist hann starfsmaður MM og síðar yfirmaður hjá MM/Eddu. Leiðir okkar Sigga áttu eftir að liggja saman síðar bæði í félagsstörfum og á vettvangi íþróttanna þegar við lékum saman í meistarflokki Fram í handbolta. Hann sem gamli maðurinn í liðinu og ég sem unglingurinn (ég var 17 ára). Hann passaði vel upp á mig i handboltaliðinu.

En það sem ég vildi sagt hafa. Í þýðingu Hannesar frá árinu 1970 á einu ljóða Tranströmer kemur fyrir orðið „kjarnakaffi“. Mun þetta vara þýðing á kaffivariantinum espresso, sem auðvitað var gersamlega óþekktur á Íslandi á þeim dögum. En Hannes er fljótur að snara espresso sem kjarnakaffi og nær fullkomlega að lýsa hverskonar kaffi espresso er. Ég ætla framvegis að nota orðið kjarnakaffi. Þetta er gott orð. Líka á dönsku. Kernekaffe.

En nú þegar Siggi Svavars kemur upp í hugann get ég ekki látið vera að rifja upp þegar hann fékk mig til að vera varaformann Félags íslenskra bókaútgefanda, hann sjálfur var formaður. Við áttum heint ágætt samstarf. Hann tók að sér að kenna mér siði og venjur þeirra sem stundaí félagsmálastörf. Við fórum meðal annars saman í nokkrar ferðir til útlanda (altilgangslausar ferðir) þar sem við komum fram sem fulltrúar íslenskra bókaútgefenda og hittum aðra bókaútgefendur. Siggi hafði alltaf töluverðar áhyggjur af útganginum á mér. Honum fannst ég aldrei nógu fínn, enda sjálfur mikill snyrtipinni og ég kærulaus með fataval. Siggi tók það margoft fram áður en við lögðum af stað í útlandaferð að ég yrði að taka fín föt með. Ég sá það á honum að þetta var hans eina áhyggjuefni. Niðurstöður funda, árangur funda, skipulagning, voru alger aukaatriði í samanburði við fatavalið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.