LaChiusa, Ítalía. Góða ferð, ungi maður.

Við erum búin að pakka í töskur og keyrum héðan frá LaChiusa snemma í fyrramálið. Í dag höfum við kvatt fólk sem við þekkjum eða könnumst við uppi í litla bænum Vico del Gargano. Í morgun fyllti ég bílinn minn á  bensínstöðinni til að undirbúa brottförina. Ég stóð við dæluna, tilbúinn að borga með visakortinu mínu þegar hinn ágæti bensínsölumaður spurði mig hvenær ég væri búinn með fríið mitt. Ég svaraði: „Við keyrum á morgun.“
„Ó, á morgun! Góða ferð.“ Svo tók hann innilega í höndina á mér, þakkaði mér viðskiptin og vonaðist að sjá mig að ári.

Á bekk á stéttinni við hlið bensínstöðvarinnar sátu, eins og venjulega, þrír gamlir karlar og fylgdust með okkur. Einhvern veginn náðu þeir að skilja að ég væri á förum svo þeir stóðu allir þrír upp og komu haltrandi til mín, tóku þéttingsfast í hönd mína, óskuðu mér góðrar ferðar og sögðust hlakka til að sjá mig að ári. Einn af viðskiptavinu bensínstöðarinnar sem stóð og fyllti bílinn sinn með bensíni áttaði sig líka á hvað var að gerast svo hann slóst í hópinn og kvaddi mig innilega og spurði hvort ekki væri öruggt að við kæmum aftur á sama tíma að ári.

Svona er þetta alls staðar sem við komum, í supermarcado, á barnum, á kaffihúsinu, á veitngahúsum hér, alls staðar fær maður þessar líka góðu óskir. Þetta er kosturinn við að koma ár eftir ár til Vico.

Annars var þetta enn einn dagur á skrifstofu með símtölum, sms-um og tölvupóstum. Ég hef aldrei þurft að vera svona mikið við vinnu í fyrri fríum mínum. Þetta venst ekki vel og ég hlakka til að fá frið.

Á morgun verðum við svo í tískuborginni Mílanó. Kannsi fæ ég frið þar.

Bókmenntamoli: Michael Chabon var, í viðtali sem ég las í gær, beðinn að nefna það ráð sem hefði gagnast honum best á ritvellinum: „Ráðið fékk ég frá pabba mínum. Hann var harðjaxl og vinnuþjarkur. Ég var eitthvað að væla um að það væri erfitt að vera rithöfundur. Hann svaraði á sinn góðlátlega hátt: „Það er ekkert erfitt. Ef þú vilt skrifa skáldsögu þarftu bara að sitja lengi á rassinum og halda það út. Ekki vera eilíflega að standa upp eða gera eitthvað annað. Sittu og skrifaðu.“

ps á myndinni hér að ofan eru sítrónurnar á sítrónutrénu okkar. Þær náðu ekki að verða fullþroska þessar fjórar áður en við keyrum norður á leið.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.