LaChiusa, Ítalía. Skógareldar

Bókmenntamoli. Í dag árið 1960 yfirgaf Hemingway Kúbu í hinsta sinn. Skip hans sigldi út úr höfninni í Havana áleiðis til Bandaríkjanna. Bandaríkjastjórn hafði sett mikinn þrýsting á Hemingway að flytja frá Kúbu vegna ósættis við hinu nýju herra í Kúbu. Hemingway hafði sest niður í káetu á skipinu á meðan skipað sigldi frá landi og neitaði að horfa til lands. Frá árnu 1939 fram til ársins 1960 var Kúba meira og minna heimaland höfundarins. Þar skrifaði hann Gamli maðurinn og hafið og Hverjum klukkan glymur (höfundalaunin fyrir þá bók notaði hann til að kaupa bújörð og hús rétt fyrir utan Havana.)

Ég veit ekki afhverju veiðimaðurinn Ernest Hemingway kemur allt í einu upp í hugann. Hann hefur aldrei verið í séstöku uppáhaldi hjá mér. Hef þó lesið allnokkrar af bókum hans án þess að vera uppnuminn á neinn hátt.

IMG_0207
Regn á borðtennisborði

Næst síðasti dagur okkar hér í suður Ítalíu að sinni og það rigndi í dag. Það var ausandi rigning, þrumur og eldingar. Það var fínt. Hér brunnu skógareldar í næsta dal og við vorum farin að hafa áhyggjur af að eldurinn breiddist hingað yfir í okkar dal í þessum mikla þurrki. Þykkir reykjabólstrar hafa stigið til himins síðustu daga og vatnsflugvélar hafa kastað vatni yfir eldana en ekki tekist að hamla útbreiðslunni. Og svo kom regnið og nú er eldurinn slokknaður.

Ekki meira að þessu sinni. Enn er komin nótt þegar ég sest við dagbókarskrif og það eru ekki kjöraðstæður fyrir mín dagbókarskrif. Ég er þreyttur því ég vakna eldsnemma. Ég er mun betur upplagður á morgnana en hér er ekki sá friður árla dags sem ég þarf til að setjast niður yfir Kaktus.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.