Mílanó, Ítalía. 101 Mílanó, Navigli-hverfið

Við lögðum af stað klukkan átta í morgun frá La Chiusa og stefndum á Mílanó. 800 km leið beinustu leið norðaustur. Við lentum í Navigli bæjarhluta Mílanó  (101 Milanó) klukkan að verða fjögur. Það gerist ekki margt á þjóðvegunum. Við erum fjögur í bílnum, farangur til 6 vikna sumarfrís og 60 lítrar af ólífuolíu sem við tökum með. Það er til heimabrúks, (ofan í eigin maga og til að gefa vinum og fjölskyldu.) Við höfum ekki hlustað á hljóðbók í þessari ferð, bara músik. Ég hef sett saman playlista sem nokkurn veginn allir geta haft gaman að. Við hlustum á Bítlana, Bubba Morthens, Spilverk þjóðanna, Hljóma, Beyoncé, Björk, Blonde Redhead, Paolo Conte, Placebo, Doors, Pink Floyd, Tom Waits, Lois Armstrong,  Bob Dylan, Abba… Eina kvörtunin er frá Daf sem segir að það séu of margir rámir gamlir menn. Það er örugglega rétt.

Svo komum við til Mílanó um fjögurleytið. Það er líflegur bær. Ég kann strax vel við mig hér. Við höfum þessa líka fínu, litlu íbúð sem við leigjum hjá AirBnB. Við höfðum varla tekið farangurinn inn úr bílnum og skoðað okkur aðeins um í íbúðinni þegar mjög svo langþráður samningur kom inn á tölvuna mína.  Pling, Undirritaður. Samningur sem ég er búinn að vinna að síðan í desember. Í meira en 9 mánuði hef ég eytt flestum vinnustundum í þennan samning sem á eftir að hafa töluverða þýðingu fyrir mig, eða vinnuna mína. En samningurinn verður  formlega undirritaður í ágúst. Við skáluðum í Prosecco.

Í kvöld heimsóttum við forleggjarann Pietro í bókabúðina hans, sem er í hverfinu okkar. Þetta er flott bókabúð, bækur upp um alla veggi og bar í einu horninu. Þetta er sjarmerandi og þetta þyrftu Reykvíkingar að taka upp. Það er hörmulegt að horfa upp á Eymundsson og MM á Laugavegi 18. Þar vantar allan menningarlegan metnað, en það nægir víst ekki til að reka bókabúð. Á morgun förum við svo með Pietro út að borða og göngum leið hér í Mílanó sem hann hefur skipulagt, þar sem við förum framhjá mikilvægustu stöðum borgarinnar.

IMG_0216 2
Bíllinn hlaðinn pjönkum. 60 lítrar af ólífuolíu leynast þarna í skottinu.

Bókmenntamoli. Ein af höfuðbókum Forlagins í haust er ný skáldsaga eftir Halldór Armand. Og nú hefur forleggjari Forlagsins lofað að senda mér handritið þegar það er tilbúið og ég hlakka til að lesa þennan unga höfund. Ég vona að hann standi undir væntingum. Ég les bókina hans og kannski get ég ausið hana lofi eða kannski finnst mér hún ekki nógu góð… maður veit aldrei.

Í dag var Booker-long-listinn tilkynntur, Zadie Smith, Arundhati Roy, Paul Auster voru meðal tilnefndra. Tvær bækur þykja mér þó athyglisverðastar: Elmet eftir Fiona Mozley og Exit West eftir Mohsin Hamid. Ég keypti mér Elmet í dag.

 

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.