Milanó, Ítalía. Tveir rithöfundar í bókabúð

Ég hef gengið um Mílanó í dag. Ég hef haft göngudagskrá og viðkomustaði sem vini mínum og Mílanóbúanum Pietro fannst mikilvægt að ég þekkti. 20 göngukílómetrar að baki. Ég er sami asninn. Mér finnst skemmtilegast að koma inn í bókabúðir, kirkjur og málverkasöfn og sitja á kaffistéttum og drekka kaffi. Ferðafélögum mínum finnst gaman að fatatísku og því sit ég oft inni í fatabúðum og fylgist með þeim þukla á varningi sem þeim finnst áhugaverður.

Þegar ég kem inn í tískuverslun svipast ég um eftir stól eða bekk og sest niður. Í einni slíkri búð varð mér hugsað til þess þegar ég var inn í bókabúð í Reykjavík fyrir nokkrum árum. Ég átti oft erindi inn í bókabúðir og þekkt því starfsfólk bókabúðanna ágætlega. Ég var á spjalli við bókabúðarmann í Reykjavík þegar ég sá tvo ágæta rithöfunda ganga inn í bókabúðina. Ég var málkunnugur báðum höfundunum. Hvorugt skáldmennanna sá mig, því báðir voru þeir einbeittir við að finna eigin bækur inni í bókabúðinni, án þess þó að láta mjög á því bera.

„Ö, lélegt, hrikalega er þetta lélegt. Þeir hafa ekki einu sinni pantað bókina mín. Hér er ekki eitt einasta eintak af nýju ljóðabókinni minni. Ömurleg bókabúð!“ heyrði ég annan rithöfundinn segja og ég sé að hann er augljóslega mjög reiður og líka ákafalega leiður. Hann snéri baki í bókahillurnar í uppgjöf og var líklegur til að strunsa út úr búðinni. Ég vissi að þeir voru engir sérstakir vinir þessir tveir höfundar en þeir höfðu augljóslega hist við bókabúðina og ákveðið að ganga saman inn.
„Nei, frábært. Bókin mín er uppseld!“ heyrði ég  hinn höfundinn segja. Hann hafði líka nýlega gefið út ljóðabók. „Þeir hafa selt öll eintökin! Það er ekki eitt eintak hér í búðinni,“ sagði hann og var allt að því hoppandi af kæti. Hann hafði þegar lift höndunum yfir höfuðið í fögnuði. En varð svo litið á félaga sinn, eða fylgdarmann, og lét hendurnar síga og dempaði fögnuðinn. Svo gengu þeir út. Annar hnípinn á undan og hinn gekk hnarreistur og veifaði til starfsfólks bókabúðarinnar, og til mín þegar hann kom auga á mig standandi við búðarkassann við hlið starfsmanns búðarinnar. Hann, skáldið með uppseldu bókina,  var brosandi út að eyrum.

Ég hef ákveðið að gera þetta að bókmenntagetraun um leið og þetta er bókmenntamoli dagsins. Hverjir voru rithöfundarnir tveir. Ég gef eina vísbendingu. Báðir höfurnarnir eru karlkyns. Báðir íslenskir. Báðir hafa höfundarnir gefið út  að minnsta kosti eina ljóðabók og að minnsta kosti eina skáldsögu. Verðlaunin fyrir rétt svör eru ferð á minn kostnað til Parísar og aftur til baka. Uppihald í 12 mánuði í borginni, auk 12 milljóna íslenskra króna (í evrum) í farareyri. Yo.

dagbók

Ein athugasemd við “Milanó, Ítalía. Tveir rithöfundar í bókabúð

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.