Chamonix, Frakkland. „Drekk hóflega“

Hó. Keyrðum í gegnum Alpana í dag. Fórum inn í fjallgarðinn Ítalíumegin komum út Frakklandsmegin. Ferðalagið frá Mílanó og hingað til Chamonix er ekki sérlega langt; um það bil þrír klukkutímar. Mér fannst gaman að koma til Mílanó, þar er góður andi og bærinn mjög líflegur.

Hér í Chamonix verðum við næstu daga. Hér er líka fallegt. Mont Blanc eða Monte Bianco gnæfir yfir bænum. Hvítafjall er tignarlegt og maður fyllist lotningu undir þessum mikla risa. Chamonix-bærinn er skemmtilegur, nútímalegur og er augljóslega paradís fyrir útvistarfólk. Nær enginn gengur um bæinn án þess að hafa reipi vafið um öxlina og með ísöxi í belti. Allir hafa þessa sérkennilegu, þykkbotna leðurskó á fótunum. Útivistarfólk elskar svona skó afar heitt.

Það lítur út fyrir að það sé töluverður áhugi hjá lesendum Kaktusins að koma lífi í eitt stykki ítalskt þorp; kaupa fyrir túkall og setja það í enduruppbyggingu. Vandinn er bara sá að þeir sem hafa haft samband eiga það sammerkt með mér að kunna ekki sérstaklega mikið fyrir sér í hússmíði en eru þess viljugri til að basla og púla með góðan málstað að leiðarljósi.

Ég gaf út bók eftir líffræðing sem heitir Dave Goulson og hann hef ég hitt nokkrum sinnum. Óvenju geðugur maður. Hann er sérfræðingur í lífi býflugna og er ástríðufullur áhugamaður um velferð þessa mikilvæga skordýrs. Hann er upphafsmaður herferðar, sem á að höfða til breskra bænda, um að rækta ákveðnar blómategundir meðfram ökrum til að auðvelda býflugum að halda lífi og auka þar með frjósemi kornsins sem ræktað er á ökrunum. Hann gekk svo langt í þessu áhugaefni sínu að hann keypti lítinn bóndabæ og nokkuð stóra jörð í Frakklandi með það í huga að skapa þar paradís býflugna. Í því skyni sáði hann blómafræjum, veitti vatni á rétta staði, útbjó tjarnir, grashóla og annað sem bætir lífsskilyrði býflugna. Bóndabæinn vildi hann líka gera upp. Í sjálfu bæjarhúsinu hafði ekki verið búið í þrjátíu ár. Hann fékk líffræðinemendur sína frá háskólanum í Sussex til að koma með sér til Frakklands nokkrar vikur í sumarfríinu til að lagfæra húsið og koma því í íbúðarhæft ástand.

10 nemendur komu með Dave niður til Frakklands og allir voru fúsir til að leggja sitt af mörkum. Fljótlega kom þó í ljós að ekki höfðu allir vilja til að leggja mjög hart að sér fyrir engin laun. Þar að auki uppgötvaði Dave  á fyrsta degi að enginn í hópnum hafði verksvit, enginn kunni að smíða og enginn hafði leiðtogahæfileika til að leiða þennan ráðvillta hóp. Afköstin voru því lítil þar sem enginn vissi hvað hann átti að gera. Hins vegar var hópurinn fljótlega mjög sólginn í rauðvínið sem Dave bauð verkamönnum sínum.

Mér datt þetta í hug af því að ég fékk fallegt hjálpartilboð með tölvupósti í dag: „Ég skal koma með þér í að byggja upp ítalskt þorp. Er góður handlangari, þykir gaman að öllu verklegu. Drekk hóflega.“

Bókmenntamoli: Á ökuferðinni frá Mílanó í dag komu í huga minn sænsku hjónin sem kalla sig Lars Kepler. Þau skrifa glæpasögur undir þessu nafni en heita í raun og veru Alexander og Alexandra Coelho Ahndoril og voru einkum þekkt í  Svíþjóð sem ljóðskáld og bókmenntafólk. Þegar Hypnotisören eða Dávaldurinn – fyrsta glæpasagan sem þau skrifuðu saman – kom út vissi engin hver faldi sig bak við dulnefnið Lars Kepler. Höfundarnir höfðu fengið stóra fúlgu fjár í fyrirframgreiðslu fyrir handritið (það vekur alltaf athygli og áhuga) og bókin varð samstundis mikil sölubók í Svíþjóð, sagan og höfundarnir voru gífurlega umtalaðir og voru miklar getgátur á lofti um hverjir höfundarnir væru í raun og veru. Það vissi enginn, nema forleggjarinn hjá Bonniersútgáfunni. Upphófst mikil leit að hinum raunverulega höfundi í sænskum dagblöðum. Bókin komst á topp metsölulista í Svíþjóð og útgáfusamningar voru ritaðir við 30 erlendar útgáfur og sænskt bókafólk spekúleraði í hver Lars Kepler væri. Henning Mankell lá lengi undir grun og líka Camilla Läckberg. En dag einn komst sænska dagblaðið Aftonposten á snoðir um hver stóð að baki Lars Kepler nafninu. Ef til vill á heppilegum tíma fyrir forlagið þar sem salan og umtalið var farið að minnka. Á forsíðu dagblaðsins var birt mynd af hjónunum Alexander og Alexöndru undir yfirskriftinni ÞETTA ER LARS KEPLER. Bókmenntaspírurnar, ljóðskáldin og essayistarnir voru afhjúpuð sem glæpasagnahöfundar. Ef þetta hefði gerst á Íslandi væri kannski hægt að líkja þessu saman við að ef bókmenntahjónin Kristján B. og Gerður Kristný hefðu skrifað toppvinsælan krimma í skjóli dulnefnis.

En það var ekki þetta sem ég ætlaði að segja. Ég las fyrir nokkru viðtal við þessi ágætu hjón, þ.e. Alexander og Alexöndru, þar sem þau sögðu frá því að þau sæktu aðallega áhrif og innblástur úr kvikmyndum. Þau hefðu það fyrir reglu að horfa að minnsta kosti á eina kvikmynd á dag. Oftast saman. Þetta fannst mér merkilegt og fékk mig til að velta Lars Kepler-hjónunum fyrir mér á 140 km hraða á Autostrada A4, Milano-Bergamo.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.