Chamonix. Frakkland. Ég man

Það er 31. júli og á morgun er 1. ágúst. Við stöndum á tímamótum. Að minnsta kosti á  mótum júlí og ágúst og alls konar öðrum tímamótum.

Það vakti athygli mína þegar ég hitti mann í dag hér í Chamonix bæ sem kynnti sig með nafni og bætti svo við að hann væri stofnaður 2001. Eins og hann væri fyrirtæki. Ég veit ekki hvort þetta var sök tungumálsins sem hann talaði eða hvort þetta var með vilja. Ég sjálfur er stofnaður árið 1961. Mér finnst orðið langt síðan árið 1961 var og ég man hluti sem ekki eru áhugaverðir í sjálfu sér en koma bara upp í huga mér í þessari röð.

Ég man …
… þegar portúgalski knattspyrnusnillingurinn Eusébio spilaði á Lauardalsvellinum á móti Val. Ég fór með Palla og pabba hans. Mamma sendi mig með banana í nesti á völlinn. Leikurinn endaði 0-0 og Siggi Dags leikfimikennarinn minn stóð í marki Vals.

… hádegisfréttir í Ríkisútvarpinu. Rödd Jóns Múla: „Franco, einræðisherra Spánar…“

… Listaskáldin vondu fylltu Háskólabíó.

… 1974 bílstæðavandi á Þingvöllum.

… Rauði krossinn afhendir bágstöddum börnum frá Vestmannaeyjum sælgæti eftir gos í Heimaey. Ég mætti í röðina og þóttist vera Vestmannaeyingur.

… Laugardagseftirmiðdagur. Enska knattspyrnan. Leikir frá helginni á undan. Leeds vs. Derby. Hvað þýðir vs? Spurðum við drengirnir okkur um leið og við settumst til að horfa á leikinn. Leeds vann leikinn og við ályktuðum að vs. þýðir að liðið sem nefnt er á undan vinnur. Næsta helgi Spurs vs. Everton. Everton vinnur leikinn. Hmmm hvað þýðir þá vs.? Kannski að leikurinn endar ekki með jafntefli var tilgáta sem Hemmi kom með? Næsta helgi. Man. Utd. vs. Man. City. Jafntefli. Hmm hvað í ósköpunum þýðir vs?

… Reynir Leósson býr til bíl með vél sem knúin er lofti. Hann pumpar í bílinn á BP bensínstöðinni  í Lágmúlanum undir vökulu auga sjónvarpsmyndavélar. Ég var á leið niður á bensínstöð til að ná í Tatara-hljómsveitarlímmiða þegar ég varð vitni að atburðinum.

… 1970. Led Zeppenlin koma til Íslands og halda tónleika í Laugardalshöll. Ég held að systir mín hafi farið á tónleikana.

… leigubílstjóri myrtur í Lauganesi

… Isaac Bashevis Singer fær Nóbelsverðlaun 1978.

… Sportvöruverslun Ingólfs Óskarssonar á Klappastíg.

… Er ég kem heim í Búðardal með Lónlí Blú Boys

… Herbalife og Jón Óttar Ragnarsson

… Idi Amin harðstjóri í Úganda.

… Bifreiðaumboð Egils Vilhjálmssonar

… Haltu kjafti brjóstsykur.

… Punktur, punktur, komma, strik, Pétur Gunnarsson.

… Handboltamaðurinn Geir Hallsteinsson.

 

 

 

 

 

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.