Ég talaði lengi við mann í síma í dag, mann sem átt i ekkert sérstakt erindi en leyfði sér að hringja af því nú búum við á sameiginlegu símasvæði. Samtalið er ekki í frásögur færandi nema hann sagði setningu sem hefur setið í mér í kvöld.
„Snæi, ég held að þetta sé besta ár lífs mín. Segir maður ekki svo: þetta er hamingjuríkasta ár lífs míns. Kannski getur maður ekki leyft sér að segja slíkt um árin að eitt sé betra en annað, sennilega er það heimskulegt… En þegar mér líður svona vel tek ég eftir að engin af hugsunum mínum snýst um upphaf og engin hugsun snýst um endi. Allt líður áfram.“
Annað atvik frá í dag situr líka í mér. Ég var á gangi með stráknum mínum, Davíð, sem er 11 ára og kurteis maður, velviljaður og vel upplýstur. Við gegnum hér eftir götu í miðbæ Chamonix og ætluðum að fá okkur kaffibolla (það er að segja ég). Án fyrirvara vindur sér maður að Davíð, svartur maður, og réttir honum höndina eins og hann vilji heilsa honum. Davíð tekur sveig og vill ekki heilsa þessum ókunna manni. Hann er ekki vanur að heilsa ókunnu fólki með handabandi. Og það er ég ekki heldur. Ég heyrði hrópað: „Where do you come from?“ með tilgerðarlegri vinsemd og áhuga. Við gengum bara leiðar okkar enda áttum við ekkert vantalað við þennan mann sem augljóslega sýndi okkur einungis áhuga af því að hann taldi okkur ákjósanleg fórnarlömb fyrir sníkjur sínar. Hann gekk á eftir okkur og vatt sér svo upp að hlið Davíðs og sagði við hann: „Þú vilt ekki taka í höndina á mér bara af því að ég er svartur.“ Þá fauk í mig, við stönsuðum og ég sneri mér að manninum: „Hvers konar rasistatal er þetta við lítinn dreng,“ segi ég við manninn og það sauð gersamlega á mér. „Hvað á þetta að þýða að ráðast á son minn og vilja taka í höndina á honum. Við þekkjumst ekki. Hann þekkir þig ekki og þú þekkir ekki hann. Og þú skalt ekki dirfast að nota húðlit þinn til að kalla fram samviskubit hjá drengnum mínum. Þetta er ekki annað en rasismi af þinni hálfu. Bara af því að hann er hvítur drengur ásakar þú hann fyrir að vilja ekki taka í höndina á svörtum manni. Það hefur ekkert með húðlit að gera. Þú ert bara dóni að ráðast að ókunnum manni, og þar að auki barni, og vilja taka í höndina á honum. Og þessi uppgerðaráhugi á uppruna okkar er móðgandi.“
Maðurinn yppti öxlum og sagði: „Fuck you, white man,“ um leið og gekk kæruleysislega í burtu. Hjartað í mér sló 180 slög á sekúndu svo æstur var ég yfir þessari uppákomu.
Fyrr í morgun spiluðum við Númi tennis á glæsilegum tennisvelli borgarinnar. Ég efast um að nokkurs staðar í heiminum sé jafnfallegt útsýni frá tennisvelli. Mont Blanc gnæfir yfir okkur á meðan við spilum. Æ, hvað það er fallegt hér. Yo.
Ég er að lesa bók eftir bandaríska rithöfundinn Elizabeth Strout. Rosalega er hún góður rithöfundur. Olive Kitteridge heitir bókin og þetta er bara masterpiece, finnst mér (maður verður að muna eftir að segja finnst mér.)