Espergærde. Sumarhúsmódelið

Í dag hef ég fengið aragrúa hamingjuóska vegna sölunnar á Hr. Ferdinand. „Stórt knús,“ sagði einn ágætur maður og það dregur saman í tveimur orðum  innihald allra þeirra fínu bréfa, símtala og sms-a sem ég hef fengið á regnvotum degi í Espergærde. Það hefur raunar rignt svo mikið að á tímabili velti ég fyrir mér hvort komið væri að því að Örkina hans Nóa yrði aftur sett á flot. Ég varð eiginlega að sannfæra mig, með löngu innra samtali, að rigningin, þessi ausandi rigning, hefði engin tengsl við söluna á forlaginu okkar.

Ég gat ekki annað en glott þegar ég fékk bréf frá Viðskiptablaði Morgunblaðsins þar sem ég var spurður hvort ég væri tilbúinn að veita viðtal um „þína áhugaverðu viðskiptasögu“? Mína áhugaverðu viðskiptasögu? Mín viðskipti eru bara skáldskapur. Ég sagði stundum við fólk sem hafði vit á viðskiptum að ég notaði hið svokallaða Sumarhúsmódel við rekstur forlagsins án þess að fara nánar út í hvað það þýddi. En í mínum huga var Sumarhúsmódelið eina rétta leiðin til að reka mitt gamla bókaforlag. Ég hætti að blaðra um Sumarhúsmódelið fyrir mörgum árum því dag einn, ég held bara að það hafi verið á hinum miklu uppgnagstímum í kringum 2006, hafði samband við mig maður frá Viðskiptadeild Háskóla Íslands og spurði mig hvort ég væri til í að halda fyrirlestur á vegum deildarinnar um Sumarhúsmódelið í nútímaviðskiptum… Nei…

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.