Ég vakna snemma og á undan öllum í húsinu. Um leið og ég kom niður varð mér litið út um eldhúsgluggann: dagar í rigningu, hugsaði ég. Himinn og jörð sameinast í einu þykku alltumlykjandi, gráu regnskýi. Það er ekkert við þessu að gera, segi ég við sjálfan mig. Það rignir og ég get ekkert gert til að breyta því. Ég kveiki á kaffivélinni, vel mér kaffibolla á meðan vélin hitnar. Svo ýti ég á hnappinn sem setur mekkanismann í gang.
Ég stend við eldhúsborðið á meðan ég drekk kaffið og skipulegg daginn. Sandra og Steinþór eru í heimsókn með Öglu og Styrmi. Þau sofa enn. Leiðinlegt fyrir þau að koma í þessa rigningu, alla leið frá Íslandi. Ég kíki á símann minn og sé að ég hef fengið SMS frá Thomasi Mala, norskum félaga mínum úr bókabranasanum. Hann ætlar að koma í heimsókn, eða í kvöldmat. Hann segist hafa gengið fyrir aftan Michael Laudrup í gær inni í Kaupmannahöfn og með SMS-inu er mynd af bakinu á Laudrup.
Ég rúlla í gegnum mailin og sé að Jóhann Páll hefur sent mail og reynt að hringja. Ég hlakka til að heyra í honum.
Ég hef fengið margar góðar kveðjur, í gær og í dag. Ég hef heyrt í mörgum og ég svara sömu spurningunni aftur og aftur. Havð nú? Hvað ætlarðu að gera við líf þitt? Ég svara eins og satt er: ég veit það ekki. Ég hef alla möguleika í heimi en mig langar að gera eitthvað sem ég hef eða fæ brennandi áhuga á. Mér liggur ekkert á. Að framleiða bækur er öðruvísi en að t.d. að framleiða sokka. Ég hef trú á að með bókframleiðslu getir þú í raun og veru gert líf fólks betra. Og í mínum huga er enginn vafi á að bækur séu mannbætandi. Bækur eru ekki framleiðsluvara. En ég gef ekki út fleiri bækur.