Espergærde. Zlatan-bók

Útvarpið var í gangi þegar ég kom niður í morgun, og á íslensku. Ég var í fyrstu undrandi en var svo fljótur að átta mig á hvers vegna útvarpið hljómaði svona snemma morguns; áður en ég fór í frí hafði stillt hátalarakerfið hér í húsinu – sem er svo nútímalegt að maður stýrir því með símanum sínum – til að kveikja á RÁS 1 klukkan sjö hvern morgun; bæði inni í eldhúsi og inni í stofu. Ég var einn á fótum og ég byrjaði að hella mér upp á kaffi án þess að hlusta almennilega á umræðurnar í útvarpinu. Í bakgrunni heyrði ég spjall karls og konu, um rósir heyrðist mér. Það var eitthvað gott og gáfulegt í frásögn konunnar svo ég sperrti eyrun og lagði við hlustir á meðan ég sýslaði í eldhúsinu. Eftir stutta hlustun rann það upp fyrir mér að þetta var skáldkonan Auður Ava Ólafsdóttir að tala um bókina sína Afleggjarinn (sem mér finnst ein besta bók skrifuð á íslensku í langan tíma) og spyrillinn var enginn annar en minn góði vinur Jón Karl Helgason. Ekki var ég hissa á hvað samtal þessara tveggja einstaklinga var áhugavert. Jón Karl laðar það besta fram í fólki.

Það var svo klukkan ellefu í morgun sem við Sus vorum mætt á skrifstofur Politikens forlags niður á Rådhuspladsen til að afhenda lyklana að Hr. Ferdinand og ganga frá síðustu gjörningunum til að afhenda forlagið. Þetta var óvenjuleg samkoma, að minnsta kosti fyrir mig. Við Sus frá Hr. Ferdinand og sjö fulltrúar Politiken sátu í kringum stórt hringborð og svo var farið yfir þau fylgiskjöl sem við höfðum afhent. Númer fylgiskjalana höfðu verið skrifuð inn í samninginn. Tveir lögfræðingar Politkens forlags fóru yfir fylgiskjölin og Jakob frá Politiken kvittaði fyrir mótttöku og Sus kvittaði á móti að allt var rétt. Stjórnarformaður Politikens samsteypunnar sat með tölvu fyrir framan sig, tilbúinn að millifæra kaupverðið þegar allt var frágengið. Honum á hægri hönd sat fjármálastjórinn, brosmild kona, og honum á vinstri hönd var einhvers konar þróunarstjóri Politikens, mjög geðfelldur maður. Ég var ekki taugaóstyrkur en mér tókst að velta fullu glasi af vatni yfir mitt eintak samningins og eintak Lenu Juul forstjóra Politikens forlags sem sat við hlið mér. Það gerði ekkert til en mér fannst leiðinlegt að vera þessi klaufi á svona fínni samkomu. Þegar formsatriðum var fullnægt ýtti stjórnarformaðurinn á millifærsluhnappinn og kinkaði kolli til okkur hinna. Þá var athöfninni lokið. Forlagið var keypt og greitt hafði verið fyrir vöruna. Svo var skálað og gantast með hina löngu og ströngu samningalotu sem spillti bæði sumarfríi okkar Sus og Lenu forstjóra Politikens.

Við komum svo heim til að kveðja Söndru og litlu fjölskyldunna hennar sem hefur verið hérna hjá okkur síðust dagana, okkur til mikillar gleði. Þau flugu heim í kvöld. Nú held ég að þau geti komið oftar í heimsókn eftir að Sandra hefur lokið doktorsnámi sínu. Það væri alla vega gaman fyrir okkur hér í Danmörku.

ps. Mér hafa verið boðin mörg störf hjá Politiken í sumar, bæði í gamni og alvöru,  sem ég hef ekki haft áhuga á. En í dag var ég spurður hvort ég vildi taka að mér að sjá um alla útgáfu Politikens á fótboltabókum. Ef ég vildi mætti ég sjálfur skrifa samtalsbók við fótboltamann, búa til danska Zlatanbók, það er að segja bók í sama stíl og samtalsbók Davids Lagercrantz við sjálfan Zlatan. Þetta var meira sagt í gríni en í alvöru en skyndilega vaknaði eitthvað í kollinum á mér; það væri skemmtilegt verkefni að skrifa nýja Zlatan-bók.

pps. Eftir fundinn með fína fólkinu hjá Politiken settumst við niður með nýja forleggjaranum hjá Hr. Ferdinand / C&K / DonMax, ungri konu sem heitir Lina Miller. Hún er ekta manneskja. Hún verkar á mig sem bæði vönduð, greind, tilgerðarlaus og gegnheil. Það er mannbætandi að hitta slíkt fólk.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.