Espergærde. Bærilegur léttleiki dagsins

Síðustu daga hef ég verið í fjölmörgum viðtölum, flest við íslenska blaðamenn en líka danska. Ég hef satt að segja engan áhuga á að vera í fjölmiðlum og velti því fyrir mér hvers vegna í ósköpunum ég samþykki að veita þessi viðtöl. Þegar blaðamaður hringir og spyr hvort ég vilji vera með í hinu eða þessu viðtali svara ég eins og kjáni: „Eiginlega ekki. Eiginlega hef ég ekki áhugá á því …“ Og þegar blaðamaður finnur hver mótstaðan er veik segir hann venjulega: „Þetta þarf ekki að vera langt… bara tíu mínútur eða korter.“ Og ég segi þá allt í lagi.

Ég er ekki maður sem hef gaman að láta ganga á eftir sér, ég á bara erfitt með að vera leiðinlegur og neita.

En nú er fyrsti rólegi dagurinn í sumar að baki; sumarið sem alltaf hefur verið í uppáhaldi hjá mér hefur verið allt annað en rólegur tími. En í dag var einhver kyrrð yfir mér og ég hef satt að segja notið dagsins, fundið léttinn við að vera búinn að selja forlagið. Ég þarf þó að vinna fyrir kaupandann Politiken næstu þrjár eða fjórar vikur og í dag tókst mér að leysa mörg verkefni fyrir forlagið. Léttur eins og fjöður, sveif ég í gegnum daginn. Þó hringdu fjórir blaðamenn, tveir íslenskir og tveir danskir. Talaði lengi við íslensku blaðamennina, annar vann hjá útvarpinu og hinn vann hjá prentmiðli.

Nú er komið kvöld og ég sit hér í eldhúsinu heima hjá mér og horfi út í gegnum gluggavegginn sem snýr út í garð (sjá mynd). Ég get ekki lýst tilfinningunni við að sitja hér í þögninni og horfa á ljósin í garðinum öðruvísi en sem gleðitilfinningu. Mér er bara ótrúlega létt.

dagbók

Skildu eftir svar