Espergærde. Konan með hundinn II

Ég mætti konunni með hundinn í morgun. Hún kom gangandi á móti mér á gagnstéttinni hinum megin við götuna þegar ég var á leið til vinnu (já, ég er enn að vinna). Það var ekki fyrr en hún gékk yfir götuna til að heilsa mér að ég tók eftir henni.
„Góðan daginn, voðalega ertu í smart jakka.“ Svona hefur hún samtalið. Hún brosir blítt og tekur hárteygju upp úr vasanum og byrjar að vefja hár sitt í hnút.
„Já, góðan daginn,“ segi ég kurteislega.
„Sást þú hvað gerðist á lestarstöðinni í gær? Ertu ekki með skrifstofu þar?“
„Jú, nei, gerðist eitthvað?“
„Já…“

Og svo kom löng, en nokkuð áhugaverð frásögn af konu – hún nefndi  nafn konunar – sem stóð á brautarpallinum á brautarstöðinni í Espergærde í gær ásamt börnum sínum tveim. Konan hafði víst ætlað til Kaupmannahafnar með börnin. Þeim hafði leiðst heima hjá sér því nú er sumarfríið orðið langt og börnin eru orðin þreytt á að hanga heima. Ferðin til Kaupmannahafnar var hugsuð sem tilbreyting frá hversdagslífinu. Á meðan þau biðu eftir lestinni tók konan sér stöðu undir skerminum sem tilkynnir komu og brottfarartíma, en börnin, tvær stúlkur, stóðu afsíðis og léku sér á hlaupahjóli.

Inn á brautarsöðina kom lest frá Helsingör á leið til Slagelse, sem sagt ekki lest konunnar. Hún var á leið til Kbh. En upp tröppurnar frá undirganginum (þar kemst maður undir lestarteinana og yfir á brautarpallinn hinum megin) heyrðist fótatak hlaupandi manns. Og örskotsstundu síðar kom ungur maður þjótandi upp tröppurnar, hann var á leið til Slagelse að hitta félaga sína. Þeir ætluðu að drekka bjór saman og horfa á kvikmynd. Jafnskjótt og drengurinn skaust upp úr tröppuopinu flautaði brautarstjórinn í flautu sína og gékk inn í lestina og gerði sig líklegan til að loka lestardyrunum. Drengurinn sá að hann var að missa af lestinni og tók á harðasprett til brautarstjórans í dyrunum. Undir handleggnum hafði hann langan pakka í svörtum ruslapoka.

Brautarstjórinn sá drenginn koma hlaupandi en hann hafði þegar ýtt á hnappinn til að loka dyrunum. Dyrnar byrjuðu að lokast og hann rétti höndina út til að taka á móti drengnum sem kom á hendingskasti í átt til hans. Í þann mund sem drengurinn  var að fara að hoppa inn í lestina skrikaði honum fótur. Hann rann og hálfdatt en brautarsjórinn náði að rétta fram höndina, grípa drenginn og  draga hann inn. Pakkinn í svarta ruslapokanum datt aftur á móti úr höndum drengsins og rann undir lestina. Dyrnar skullu aftur. Drengurinn og björgunarmaður hans stóðu bak við lokaðar lestardyrnar en  lestin mjakaðist af stað.

Nú gerðist hið óvænta. Lestin jók ferðina og var á leið út af brautarstöðinni þegar skyndilega varð mikil sprenging undir lestinni og henni fylgdu miklar eldglæringar og hávær hvellur Maður sem stóð á brautarpallinum með aðra hönd í vasnum og síma í hinni rak skyndilega upp óp og féll aftur fyrir sig. Hann varð fyrir einhverjum hlut úr sprengjunni.

Síðar kom í ljós að innihald svarta ruslapokans voru gamlir flugeldar frá síðustu áramótum sem drengurinn ætlaði að sprengja með vinum sínum í Slagelse. En það var ekki bara maður með hönd í vasa sem fékk flugeld hausinn. Annar flugeldur lenti í skerminum fyrir ofan konuna með þeim afleiðingum að skermurinn fellur ofan á hana. Konan meiddi sig, var flutt á slysavarðstofu. Ákvað konan að fara í mál til að leita réttar síns og fá bætur fyrir áfall og líkamstjón… en við hvern fór hún í mál?

Já, það skrýtna var að hún fór í mál við lestarfélagið DSB! Vegna þess að lestin sem var í eigu DSB keyrði yfir flugeldapokann með þeim afleiðingum að flugeldarnir sprungu og lentu í skjánum fyrir ofan konuna.

Lögfræðingar konunnar beita fyrir sig einhverju sem heitir á lögfræðimáli cause of fact.

Í þessu tilviki er fact 1) að konan meiddist í höfði 2) afþví að skjár datt í hausinn á henni 3) af því að lestin í eigu DSB keyrði yfir flugelda. Sérkennilegt, en þetta sagði konan með hundinn mér.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.