Espergærde. Reykvélin

Ég er alltaf að lesa. Fyrir mig er jafnnauðsynlegt að hafa eitthvað að lesa og að það sé súrefni í loftinu sem ég anda að mér. Ég les á morgnana, í hádeginu, á kvöldin. Áður en ég sofna og þegar ég vakna um nætur. Ég les prentaðar bækur, e-bækur, dagblöð, greinar í nettímaritum, skáldsögur, krimma, ævisögur og non-fiction. En ég furða mig stundum á því hvers vegna sumir leggja það á sig skrifa slappar, metnaðarlausar bækur, ég furða mig á að útgefendur gefi þær út og að prentarinn noti bleksvertu til að prenta þær. Mér finnst nógu leiðinlegt að vélrita eina síðu… en að skrifa heila bók inn á tölvu… Ef maður leggur það á sig að skrifa 100.000 orð inn á tölvu (sem er meðalbók) er kannski eins gott að maður hafi frá einhverju áhugaverðu að segja, að manni liggi eitthvað á hjarta. Ha!

Ég var í veislu í gær og nótt. Það voru nágrannar mínir hér í bænum sem héldu veisluna og buðu bæði vinum og kunningjum. Ég heyrði það á nágranna mínum, sá sem bauð til partýsins, að hann stefndi á góða veislu þar sem fólk færi fljótlega í fjörgírinn, dansaði og skemmti sér. Hann hafði meðal annars, að þessu tilefni, leigt diskókúlur, diskóljós, nýja stóra hátalara og reykvél.

Ég mætti til veislunnar og fann að það yrði því miður ekki ég sem setti gang í partýið. Einhvern veginn var ég bara ekki upplagður í fjör. Reynt var að hella í mig áfengi í stórum stíl en ég svindlaði og fékk mér bara tonic, klaka, myntublöð en ekkert gin í glas og lét sem ég drykki áfengan drykk. Allir voru í góðu skapi, sumir urðu nokkuð drukknir og byrjuðu að röfla eins og fullt fólk gerir. Það gerir ekkert til ef maður er í sama gír en þetta verður frekar þreytt þegar maður er alsgáður. Stóri vandinn var þó að enginn dansaði, diskóljósin voru kveikt, diskókúlan snerist og hækkað var í músikinni. Svo fór reykvélin meira að segja í gang og ég gekk inn í reykinn til að hverfa á bak við mökkinn. Enginn steig út á dansgólfið. Allir héldu áfram að tala án þess svo mikið að veita reykvélinni athygli. Ég vorkenndi veisluhaldaranum og var hálfmiður mín yfir að hafa ekki tekið á honum stóra mínum og sett mig í fjörgírinn. Dansað eins og Michael Jackson fyrir fólkið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.