Espergærde. Hálf manneskja, hálfur iPhone.

Hó! Í fyrsta sinn í margar vikur skrifa ég dagbók dagsins að morgni. Í allt sumar hef ég ekki haft ró á morgnana og því hef ég valið kvöldin og næturnar til að skrifa. Satt að segja hentar það mér ekki sérlega vel að setja eitthvað á blað svona seint. Ég er hressari á morgnana og hef stundum verið bæði þreyttur og syfjaður þegar ég hef sest niður við dagbókarskrifí kvöldmyrkrinu. En nú er morgun, fyrsti skóladagur hjá Davíð í nýjum skóla, í nýjum bekk og hjá nýjum kennara. Þetta er ekki óskastaða svo hann var spenntur og kvíðinn í morgun. Það þurfti því aðeins að klappa honum og knúsa til að lyfta andanum.

Ég átti langt samtal við vin minn, ágætan rit- og handsritshöfund, í gær. Hann var inni í einu af sínum þungu tímabilum þar sem honum finnst lítið ganga með skrif, vinnu og menningarlífið almennt. Á þessum stundum í lífi hans finnst honum flest vera á niðurleið. „Fólk er alveg orðið kúlturlaust, hálfar manneskjur, hálfur iphone,“ var ein af upphrópunum hans. Ég skildi svo sem alveg hvað hann átti við. Það er komin ný heimsplága, handskjár, sem á eftir að setja mark sitt á heilastarfssemi mannkyns, einbeitingarhæfnin fer dvínandi og hæfileiki fólks til að sökkva sér niður í verkefni fer hrakandi. Sjálfur hef ég vanið mig af að kíkja á síma í tíma og ótíma, sem er í mínum augum framfaraskref.

Þegar ég kom inn á skrifstofuna í morgun horfði ég út á brautarpallinn fyrir utan gluggann minn og virtifyrir mér fólkið sem beið eftir morgunlestinni. Ég kannaðist við nokkur andlit en það var lítil fjölskylda – faðir, móðir og unglingsstúlka sem vakti athygli mína  – fjölskyldan hafði dregið sig aðeins út úr fjöldanum og var augljóslega í nokkru uppnámi. Foreldrarnir reyndu að sefa unglingsstúlkuna sem greinilega var ekki í góðu skapi því hún hrópaði að foreldrum sínum og öll hennar líkamstjáning var fjansamleg í garð hinna eldri. Þetta var ekki þægileg sjón.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.