Í gær las ég viðtal við Kim Leine, höfund Spámannanna í Botnleysufirði sem Jón Hallur þýddi svo listavel á íslensku. Kim Leine er danskur en fæddur í Noregi og bjó þar fram á unglingsár. Þá fluttist hann aftur til Danmerkur. Þetta var ansi gott viðtal við rithöfundinn um fíknir hans, fyrst áfengi og pillur, en nú að skrifa og lesa. Í sama vefriti las ég líka skemmtilegt viðtal við dönsku skáldkonuna Naju Mariu Aidt. Hún hefur búið síðustu níu ár í Brooklyn og sagði frá lífi sínu sem skáldkona fjarri heimalandinu, hvaða áhrif það hefur á skrif hennar til hins betra og til hins verra. Mér fannst gaman að lesa þessi samtöl og fékk áhuga á að lesa bækur Naju. Ég held að það sé ekki svo títt að svona ítarleg og vel unnin viðtöl við íslenska listamenn birtast í íslenskum fjölmiðlum.
Það nálgast sumarlok og ég finn að hversdagslífið er að taka völdin. Strákarnir eru byrjaðir í skólanum og ég sest inn á skrifstofu mína snemma á morgnana hvern dag. Þótt ég þurfi ekki lengur að finna bækur til útgáfu, framleiða bækur og selja bækur á ég enn annrikt við að flytja strafsemi Hr. Ferdinands yfir til Politiken. Sennilega verð ég næstu þrjár til fjórar vikurnar fastur í bókabransanum.
Bæði á förnum vegi og í bréfum er ég aftur og aftur spurður að því hvað taki við hjá mér þegar ég hef lokið störfum í bókabransanum. Ég get ekki svarað öðru en að ég viti það ekki. Og það er satt, ég veit ekki hvað tekur við. Ég er fjáls maður og allt getur gerst.