Espergærde. Fíknir

Í gær las ég viðtal við Kim Leine, höfund Spámannanna í Botnleysufirði sem Jón Hallur þýddi svo listavel á íslensku. Kim Leine er danskur en fæddur í Noregi og bjó þar fram á unglingsár. Þá  fluttist hann aftur til Danmerkur. Þetta var ansi gott viðtal við rithöfundinn um fíknir hans, fyrst áfengi og pillur, en nú að skrifa og lesa. Í sama vefriti las ég líka skemmtilegt viðtal við dönsku skáldkonuna Naju Mariu Aidt. Hún hefur búið síðustu níu ár í Brooklyn og sagði frá lífi sínu sem skáldkona fjarri heimalandinu, hvaða áhrif það hefur á skrif hennar til hins betra og til hins verra. Mér fannst gaman að lesa þessi samtöl og fékk áhuga á að lesa bækur Naju. Ég held að það sé ekki svo títt að svona ítarleg og vel unnin viðtöl við íslenska listamenn birtast í íslenskum fjölmiðlum.

Það nálgast sumarlok og ég finn að hversdagslífið er að taka völdin. Strákarnir eru byrjaðir í skólanum og ég sest inn á skrifstofu mína snemma á morgnana hvern dag. Þótt ég þurfi ekki lengur að finna bækur til útgáfu, framleiða bækur og selja bækur á ég enn annrikt við að flytja strafsemi Hr. Ferdinands yfir til Politiken. Sennilega verð ég næstu þrjár til fjórar vikurnar fastur í bókabransanum.

Bæði á förnum vegi og í bréfum er ég aftur og aftur spurður að því hvað taki við hjá mér þegar ég hef lokið störfum í bókabransanum. Ég get ekki svarað öðru en að ég viti það ekki. Og það er satt, ég veit ekki hvað tekur við. Ég er fjáls maður og allt getur gerst.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.