Espergærde. Hin heimska þjóð

Hvað er að gerast? Hugsaði ég þegar ég sá frétt um að samdráttur í bóksölu á Íslandi hafi verið 31% frá árinu 2008. Þetta er katastrófa! Þriðjungi færri bækur seldar í ár en 2008. Hvað veldur? Mér er brugðið. Ég sá að Egill Örn hjá Forlaginu kennir hækkun virðisaukaskatts um þetta háa fall bóksölunnar. Það held ég að sé langt frá því að vera meginorsökin. Nú verða menn að viðurkenna hver hin eiginlegi vandi er annars skylmast menn við vindinn. Að bók hækki um nokkrar krónur vegna þess að virðisaukaskattur hækki úr 7% í 11% fælir ekki áhugasama frá bókakaupum. Ég ætla ekki að fara eyðileggja baráttuna hjá Félagi íslenskra bókaútgefenda fyrir lækkuna virðisaukaskatts. No worries. Hvorki fjármálaráðherra né aðrir stjórnmálamenn lesa dagbókina mína svo ég get sagt nákvæmlega það sem ég held. Og þetta er það sem ég held: bókaútgefendur verði nú að líta í eigin barm og viðurkenna að það sígur á ógæfuhliðina og  virðisaukaskatturinn er ekki höfuðóvinur.

Ég gæti með sama rétti sagt að aðalorsökin sé að það koma út of margar slappar bækur á Íslandi sem eru seldar á fölskum forsendum. Það er ekki verri skýring en að virðisaukaskatturinn sé að eyðileggja bókaútgáfuna. Það er margt sem veldur því að bóksala á í vök að verjast.  T.d. minnkandi áhugi fjölmiðla á að miðla bókmenntum. Minnkandi áhugi á fjölmiðlum, s.s. minni dagblaðalestur. Skjávæðing þjóðarinnar, þar sem fólk er upptekið af símum sínum og tólum. Kannski ætti ég að segja háð símum sínum og tólum, og notar ómældan tíma í það oft lítilsverða suð sem bak við skjáinn er að finna. Minni áhersla á bóklestur barna. Minni áhugi á viðhaldi og eflingu íslenskrar tungu.

Hér byrjar hinn langi hringstigi niður í gröfina: Þegar áhugi minnkar verður enn minni áhersla á umfjöllun um bókmenntir og menningu. Vegna þess að það er lítil umfjöllun um bókmenntir minnkar áhuginn á bókmenntum…

Mín tilfinning er að það vanti einhvern sameiginlegan spirrit, sameiginlegan baráttukraft, hjá þeim sem hafa raunverulegan áhuga á að bækur séu lesnar, og trúa því að það gagnist lífinu í hinu litla, íslenska samfélagi að stór hópur hafi áhuga á bókmenntum og þeirri uppliftingu sem bóklestur veitir. Það er ekki oft sem maður greinir brennandi áhuga fyrir því að bóklíf þrífist á Íslandi. Hvorki bókaútgáfurnar á Íslandi, bókabúðirnar, dagblöðin, vefritin sýna í verki að þeim finnst mikilvægt að þjóðin haldi áfram að rækta tunguna og rækta hina mikilvægu listgrein sem bókmenntirnar eru.

Eitt er ég viss um: Bókalaus þjóð er heimsk þjóð.

ps. Nú ættu bókaútgefendur að rífa sig upp. Það þarf fyrst og fremst að passa upp á útgáfu bóka fyrir unga. Fullorðnir sem ekki hafa prufað að sökkva ofan í bók sem börn, ná aldrei að finna fyrir hinni miklu gleði sem því fylgir. Bókaútgefendur: takið nú vel á móti þeim sem geta og hafa áhuga á að skrifa almennilegar bækur fyrir yngri landsmenn.

pps. Var að koma frá tannlækni sem þurfti að rífa úr mér tönn vegna þess að það var einhverskonar sprunga í rótinni sem ekki var hægt að laga. Tannlæknirinn huggaði mig með að ég ætti eftir að finna fyrir geðveikislegum sársauka, sérstaklega á morgun „vanvittige smerte, især i morgen“. Ég varð hálfskelkaður. Er það kannski táknrænt að ég missi tönn á sama tíma og tilkynnt er um dauðastríð bókaútgáfunnar.

ppps. Ég bý ekki á Íslandi en mér sýnist einhvern veginn að listamenn þjóðarinnar hafi meiri áhuga á Costco, eða hvað hún heitir þessi nýja búð, en almennri menningargleði. Costco er orðin hin stóra hamingjuuppspretta. Í nærri hvert sinn sem ég rekst á eitthvað frá íslenskum listamanni er það vegna þess að hann, listamaðurinn,  þarf að opinbera hvað hann/ hún hafi gert mikil kostakaup í Costco og um leið sparkar hann, listamaðurinn, í aðra kaupmenn í landinu. Costco er hin nýja frelsishetja.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.