Ég las í gær – já, ég er alltaf að lesa, fyndinn náungi – grein um internetið og hvað það er afhjúpandi fyrir hinn innri mann. Einhver náungi, sennilega prófessor í datalogy, hefur rannsakað atferli internetnotenda í nokkur ár og skrifað bók sem vakið hefur töluverða athygli. Hvað er það sem er efst í huga fólks þegar það situr eitt yfir sínu interneti? Að hverju leitar það? Michael Jagger, litli söngvarinn, hefur svarið. „Sex and sex and sex and sex,“ sagði Michael Jagger og hann hafði rétt fyrir sér. Internetnotendur eru sólgnir í kynlíf. Pornosíður eru langvinsælasta efni internetsins. Svo er annað sem prófessorinn sagði sem vakti athygli mína og kom mér á óvart. Alls konar rasistasíður, mannhaturssíður, eru mun oftar heimsóttar en hann hafði reiknað með. Og það er margskonar sori sem fólk leitar í á internetinu, og aumingja prófessorinn var alveg miður sín, sem ég skil vel. Niðurstaða hans er á þessa leið:
„Ef við hefðum í höndunum óbrigðulan hamingjumæli sem gæti mælt það sem hin mannlega tilvera vinnur eða græðir á internetinu og það hún tapar eða missir með internetinu, þá held ég að niðurstaðan sé neikvæð og á eftir að verða enn neikvæðari.“
Þetta er afar dapurleg niðurstaða finnst mér.