Espergærde. Predikun á sunnudegi

Allt er mögulegt. Þetta var fyrsta setningin sem kom upp í hugann þegar ég settist niður við dagbókarskrif klukkan hálft tíu á sunnudagsmorgni. Ég á að vera mættur eftir hálftíma út á tennisvöllinn þar sem ég spila einvígi við Thomas, duglega manninn. Thomas horfir daglega á tennis á YouTube, forhandartækni, bakhandartækni, uppgjafartækni… hann er metnaðarfullur tennisspilari hann Thomas. En allt er mögulegt er stef sem keyrir um hausinn á mér þessa dagana.

En sem sagt þegar ég sest niður við dagbókina mín, Kaktusinn, veit ég nær aldrei fyrirfram hvað kemur niður á blað. Ég sest og skrifa, og nú hef ég skrifað dagbók á hverjum degi með einni undantekningu, (daginn sem ég fékk hina skyndilegu magakveisu í Fiatone í sumar). Mér verður stundum hugsað til pabba míns prestsins sem þurfti að skrifa ræður fyrir hvern sunnudag árið um kring, ár eftir ár. Hann var metnaðarfullur og samviskusamur prestur. Að messa var hans stærsta gleði í lífinu. Hann sat á kontórnum sínum og reykti pípu, las, skrifaði og undirbjó ræðu sunnudagsins. Ég spurði hann stundum þegar ég var barn afhverju hann notaði svo mikinn tíma til að skrifa korters ræðu. Pabbi minn var ekki sérlega mikið fyrir að grínast, hann var alvarlegur þegar hann talaði, þótt honum þætti gaman að heyra skemmtisögur og hló dátt. En þegar ég spurði hann um hinn langa ræðuundirbúning spurði hann mig alltaf hvort ég vildi ekki bara halda ræðu sunnudagsins. Og hann meinti það. Honum fannst það góð hugmynd að barnið eða unglingurinn stæði í predikunarstólnum og héldi sína predikun um Guð og almættið. Það gat ég ekki hugsað mér.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.