Espergærde. Óvopnaður her sölumanna

Þótt við séum búin að selja forlagið hef ég enn skyldum að gegna gagnvart kaupanda Hr. Ferdinands, s.s. Politikens forlagi. Og í morgun þurfti ég að eiga fund með söludeildinni. Ég hef aldrei fyrr setið fund með söludeild eins né neins og ég var eiginlega dálítið imponeraður þegar ég mætti inn á skrifstofuna og sá að þarna sátu 15 manns sem höfðu það fyrir vinnu að þeysa um Danmörku, landið þvert og endilangt, til að selja bækur inn til bókabúða. Þetta eru nokkur hestöfl sem eitt stórforlag notar til að koma bókunum sínum yfir til fólksins. Mér fannst allt í einu aftur spennandi  að gefa út bækur ef maður gæti virkjað heilan her til að hjálpa sér við að koma bókunum út. En, nei, ég ætla ekki aftur að gera út bækur.

Klukkan sex í dag á ég að spila með fótboltaliðinu mínu IF Espergærde, á móti fótboltaliðinu Galaxi FC sem er lið tyrkneskra leigubílstjóra. Þeir búa í Nivå og Kokkedal. Ekki eru þeir sérstaklega góðir í fótbolta þessir ágætu leigubílstjórar (kannski eru þeir ekki leigubílstjórar, ég heyrði bara að einhver nefndi að þeir keyrðu allir leigubíl, en tyrkneskir eru þeir) en Galaximenn eru skapbráðir. Nú hef ég spilað þrjá leiki á móti þessu liði og í hvert skipti liggur við áflogum milli fótboltamannanna á vellinum; það eru stimpingar og það hljóma fúkyrði. Ég kem með skýrslu yfir gang mála á morgun ef ég hef heilsu til.

 

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.