Espergærde. Hinn auðsærði

Stundum furða ég mig á sjálfum mér. Til dæmis ræð ég ekkert við hvað ég er auðsærður. Ég er ekki hörundssár en ég er auðsærður. Ég á sennilega óvenju auðvelt með að verða leiður yfir óvarlegum orðum eða gerðum fólks sem ég túlka sem einhverskonar athugasemdir við persónu mína. Ég tek hluti alltof nærri mér og ég reyni ítrekað að breyta því en ég viðurkenni að mér tekst það mjög misjafnlega.

Í gær var leikur við fótboltafélagið Galaxi FC sem átti gersamlega eftir að setja mig úr takti í allt gærkvöldi og ég vaknaði í morgun jafnleiður og ég fór að sofa. Síðustu árin hef ég sem sagt verið fastur maður í liðinu mínu og sjálfvalinn sem miðja varnarinnar. Í gær urðu breytingar og ég skynjaði einhvern veginn að það mundi eitthvað gerast. Við hituðum upp á rennisléttum og grænum grasvellinum í Nivå. Sólin skein og við hlupum fram og til baka og spörkuðum bolta á milli okkar. Þjálfarinn kallaði síðan leikmannahópinn til sín fyrir leikinn til að tilkynna liðsuppstillingu. Við söfnuðumst í kringum hann út við annað markið. Ég lagaði hárteygjuna sem heldur hárinu á mér frá andlitinu og virti Fredslund binda skóreimarnar á fótboltaskónum sínum. Þjálfarinn ræskti sig. Venjulega byrjar hann á að tilkynna hver standi í markinu og svo hverjir séu í vörninni og svo hverjir spila á miðjunni…. Í gær var eitthvað hik á þjálfaranum þegar hann tilkynnti liðið og hann byrjaði að segja hverjir ættu að vera í sókninni og svo miðjan og næst vörnin og… hann nefndi ekki nafnið mitt….!?!? „Og á bekknum: Zlatan (það er ég), Kjær, HAP…“ Ég sagði ekkert en ég fann að mér var mjög brugðið. Er ég orðinn lélegri en Max? Hann er alls ekki góður… Er ég orðinn svona lélegur…? hugsaði ég á leið minni út af vellinum. Ég settist sem steinrunninn á bekkinn og hugsanirnar hringsnerust í höfðinu á mér. Ég stóð upp og byrjaði að hlaupa bak við varamannabekkinn til að halda mér heitum en aðallega til reyna að jafna mig á þessari nýju stöðu. Ég gat ekki hugsað mér að koma inn á völlinn.

Seinni hálfleikur: „Zlatan, þú kemur inná fyrir Max,“ sagði þjálfarinn. Ég var ekki tilbúinn en ég fór inn á völlinn og það liðu ekki nema um það bil 2 mínútur þar til ég var kominn í hálfgerð slagsmál við Galaxileikmann, sem endaði með að hann sparkaði mig niður og fékk rautt spjald. Þá gekk ég út af vellinum og lét skifta mér út. Ég  fann að ég var ekki tilbúinn í þennan leik.

Ég sagði ekki margt í gær en inni í mér var þessi ólga, eins og alltaf þegar mér sárnar eitthvað. Ég segi ekki neitt ég reyni bara að bera mig vel. En ég hálfskammaðist mín að hafa lent á bekknum, ég skammaðist mín fyrir að vera orðinn svo lélegur að ég var ekki lengur valinn í byrjunarliðið. Ég gat ekki útskýrt þetta fyrir neinum, ég bara skammaðist mín. Svona er að vera allt of viðkvæmur maður.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.