Espergærde. Gullin gleði

Ég á nokkra mjög góða vini sem verða mér með árunum æ mikilvægari. Ég hugsa til þeirra daglega og ég finn að þeir hugsa til mín. Það versta er að þeir búa allir á Íslandi á meðan ég er hér í útlendu regni. Í gær fékk ég sendar einskonar samúðarkveðjur. Var það í tilefni þess að ég var settur á varamannabekkinn í síðasta leik fótboltaliðsins míns. Það er auðvitað hlægilegt að verða leiður yfir því. Og óskiljanlegt fyrir utanaðkomandi. En svona er það eftir að hafa spilað fótbolta allt sitt líf og aldrei verið settur á bekkinn. Þetta skiptir mann undarlega miklu máli. En tvær vísur fékk ég t.d. sendar til að létta mitt geð. Satt að segja hjálpaði það að fá sendingarnar. Kannski ekki bara vísurnar í sjálfu sér, þótt þær séu góðar, heldur hugurinn sem fylgdi, lyfti mér öllum.

Tækifærið gríptu greitt,
giftu mun það skapa,
járnið skaltu hamra heitt,
að hika er sama og tapa.
(Steingrímur Thorsteisson)
Lifðu með ljúfu geði og láttu það eftir þér
að eiga þá gullnu gleði sem gleðst yfir sjálfri sér.
(Úlfur Ragnarsson)
Hér í Danmörku á ég ótal marga góða kunningja en ég sakna þess vinskapar sem byggir á djúpri væntumþykju, sameiginlegum áhugamálum og svipaðri lífssýn. Slíkur vinskapur er því miður ekki tíndur á trjánum.
… Fyrir utan gluggann minn á skrifstofunni við lestarpallinn horfi ég á skólabörn á leið til Helsingör. Þau standa með símana sína, hvert fyrir sig og reyna að ráða lífsgátuna í gegnum símaskjáinn. Tveir drengir hafa þó dregð sig úr hópnum, annar lítur út fyrir að koma frá Grænlandi. Hann á í heitum samræðum við félaga sinn. Honum liggur mikið á hjarta, það er ljós í augum hans og hann patar út höndunum til að gera frásögn sína áhrifaríkari og félaginn horfir á hann opinmynntur og drekkur í sig hvert orð. Þessi dramatíska frásögn virðist ekki ná athygli hinna barnanna.
… Á meðan Bubbi Morthens spilar fyrir mig af nýrri hljómplötu, sem ég sá að Guðmundur Andri Thorsson lofssöng fyrir skömmu, sný ég mér aftur að mínu; útbý skýrslu til Politiken og held áfram vinnu minni fyrir Palla. Skólabörnin bíða enn eftir lestinni hér fyrir utan, grænlenski drengurinn stendur nú einn og virðist í þungum þönkum.
IMG_0340

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.