Espergærde. Þetta er spirrrritinnnnn.

Laugardagsmorgunn og ég hef opnað út á verönd svo nú heyri ég fuglana syngja. Logn og kyrrð. Í þögninni heyrir maður best. Ísbíllinn er á ferðinni neðar í götunni, ég heyri klukkur bílsins hringja. (Það minnir mig alltaf á manninn sem laug að börnunum sínum að þegar ísbíllinn hringir bjöllum sínum er ísinn uppseldur.) Á borðinu fyrir framan mig er pakki sem mér barst frá Bókakaffinu á Selfossi. Ég hafði lesið grein um bók P.D. James Saklaust blóð í útlendu riti og þar (í bókinni) á maður víst að finna rittækni sem slær allt annað út. Óvæntasta twist allra tíma sem er svo vel unnið af höfundinum að maður skal og verður að lesa bókina, segir í greininni í hinu útlenda blaði. Ég pantaði því bókina samstundis hjá bókakaffinu og það liðu ekki nema tveir dagar frá pöntun þar til ég hafði bókina á eldhúsborðinu hér í Danmörku. Mér skylst að þeir hjá bókakaffinu noti ofur-dróna til að senda bækur eftir að allskonar smávélmenni hafi fundið bókina á lagernum og pakkað henni í hátækniumbúðir.

Annað. Eftir að ég æsti mig yfir falli bóksölu á Íslandi hef ég bæði heyrt frá íslenskum útgefendum, rithöfundum og lesendum sem hafa komið með tillögur og athugasemdir við hvernig tryggja skal framtíð bókamarkaðarins. Verst þótti mér að allir útgefendur hölluðu sér í eina átt, í faðm ríkisins, en þar er enga huggun að fá, í faðmi ríkisins er leiðina fram á við ekki að finna. Þar er nálykt.

Hér koma nokkrar setningar frá aðilum bókamarkaðarins (eins og maður getur kallað höfunda og útgefendur):

„Tvennt geta stjórnvöld gert strax til að auka líkurnar á því að börn og unglingar heyri málið. Í fyrsta lagi geta þau afnumið skatta af bókum svo fólk kaupi þær frekar og lesi oftar fyrir krakkana.“ (rithöfundur)

„Koma svo hin íslenska ríkisstjórn! Eru þeir kannski með fésbókarsíðu?“ (rithöfundur)

„Við þurfum bara í sameiningu að sannfæra skammsýn stjórnvöld um mikilvægi bóklestrar og bókmenningar.“ (útgefandi)

„… auðvitað væri gott að losna við vaskinn, bæði þessar krónur, og sem stuðningyfirlýsingu hins opinbera, viðurkenningu á að þetta sé mikilvæg menningarstarfsemi í lífi þjóðar.“ (útgefandi)

Svo kom þessi gullna setning frá rithöfundi: „Höfuðverkefnið er auðvitað að bókmenntirnar séu svo skemmtilegar og áleitnar að rithöfundar og bækur, fremur en 11 ára fatahönnuðir, séu fréttaefni dagblaðanna.“

Þetta er spirrrritinnnnn.

ps Bókmenntahátíðin í Louisiana safninu byrjaði í gær. Fór og hlustaði á Imbue Mbolo frá Kamerún. Hreint ágætt.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.