Las grein eftir Kristján B. í gær um stöðu íslenskunnar sem raftungumáls og erfiðleika bókamarkaðarins. Mér finnst Kristján skynsamur maður og oft vel að sér um ólíklegustu hluti. Hann segir m.a.: „En af því að íslenski markaðurinn er svo lítill er þetta ekki mögulegt nema sem samfélagslegt verkefni. Hins vegar er það bara staðreynd að enginn, já enginn og ekkert pólitískt afl hefur litið á þetta sem merkilegt mál. Það virðist ríkja fullkominn doði á þessu sviði. Ráðuneyti mennamála og þeir embættismenn sem maður heyrði í þar töldu að þetta myndi allt bara leysast af sjálfu sér á markaðnum. Það sama heyrði maður hjá stjórnmálamönnunum, sama úr hvaða flokki þeir komu.
Rafvæðingin myndi ekki leysa vandamál bókamarkaðarins. Raunar síður en svo. En hún gæti hins vegar bjargað bókmenningunni og tryggt að íslenskan væri áfram gjaldgeng sem rafrænt tungumál. Það er hún ekki í augnablikinu. Íslendingar lesa mikið á netinu, en þeir lesa aðallega texta sem næsti maður skrifar í hugaræsingi og það sem fjölmiðlar síðan lepja hver í annan – nú eða skrifa af metnaði, þar glóir líka gullið.
Ég held að það sé mikilvægt að skilja að rafvæðing bóka leysir ekki vanda útgáfunnar, þvert á móti eins og KBJ segir. Hér í Danmörku, þar sem ég þekki, hefur verð á rafbókum lækkað síðustu fjögur ár um meira en 70% og nú er verðið orðið svo lágt, þökk sé streaming hjá Mofibo, Storytell…, að nú fá útgefendur um það bil 340 ikr fyrir lesna bók. Ef greiða á laun til þeirra sem vinna við bækur þá er verðið augljóslega of lágt. Það hefur verið tilhneiging síðustu ár að fáir vilja greiða fyrir rafrænt efni. Það er dálítið erfitt að skilja en svona er það nú. Dagblöðin finna fyrir þessari tregðu og það gerir bókaútgáfan líka. Niðurstaðan verður, ef þessi þróun heldur áfram, að bókaútgáfa og útgáfa dagblaða verður nánast ómöguleg. Ég hef það á tilfinningunni að dauði prentmiðla skapi ekki betra samfélag, heldur þvert á móti.