Espergærde. Leysin þrjú.

Í gær fékk ég einstaklega viðkunnanlegt bréf frá ungum höfundi. Ég kalla alla þá höfunda sem eru yngri en ég, unga höfunda. En bréfið fékk ég sem sagt síðdegis í gær:
„… ég er að gefa út skáldsögu hjá Forlaginu núna í haust. … Í viðhengi er að finna handritið að sögunni sem kemur út í haust ef þú hefur áhuga á að lesa. Ég læt einnig kápuna fylgja með. Þætti sömuleiðis vænt um að fá að senda þér eintak þegar hún kemur úr prentun í byrjun október.
Ég vona að þú hafir gaman af bókinni!“

Bréfið er lengra, en það er eitthvað við tóninn sem mér finnst bara góður. Ég byrjaði líka að lesa á símanum mínum söguna sem fylgdi sendingunni á meðan ég rölti heim frá vinnu. Kannski var ég blindaður af hinu viðfelldna bréfi en satt að segja leist mér ákaflega vel á byrjun bókarinnar. Ég hef rekist á það hjá þeim höfundum sem ég kalla unghöfundar að oft vantar svolítið upp á áferð texta þeirra, eða það finnst mér. Textarnir er oft sléttir eins og nylondúkur, flatir eins straubretti,  en á þessum 4 síðum sem ég las í gær fann ég fyrir áferðinni eins og um ekta bómull væri að ræða.

Stundum les ég nokkrar íslenskar bloggsíður á meðan ég borða hádegismatinn við skrifborðið. Það er á þeim dögum sem ég er einn hérna á lestarstöðinni og enginn til að borða hádegismat með. Þær eru auðvitað misjafnar, bloggsíðurnar íslensku, eins og öll mannanna verk. Hingað til hefur mér þótt skemmtilegast að lesa skrif ungrar skáldkonu (enn segi ég ung, ég veit ekki hve gömul skáldkonan er, en ég hef á tilfinningunni að hún  sé yngri en ég) sem heitir Þórdís Gísladóttir. Þar hefur bloggtextinn skemmtilegt áreynsluleysi, látleysi og tilgerðarleysi (leysin þrjú sem allir blogghöfundar ættu kannski að reyna að tileinka sér.) Ég þekki Þórdísi Gísladóttur ekki, ég held að ég hafi aldrei hitt hana, en ef ég man rétt var hún hluti af hópi sem rak bókmenntasíðuna Druslubækur og doðrantar sem nú hefur lagt upp laupana eða er að minnsta kosti með litlu lífsmarki.

Hvað um það, ég spilaði tennis í gær, strax og ég var kominn heim frá vinnu. Duglegi maðurinn hafði sent SMS og vildi spila, ná fram hefndum eins og hann kallaði það. Ég sagðist koma. Duglegi maðurinn býr bak við húsið mitt og ég kemst yfir til hans með því að ganga út í garðinn  fyrir aftan húsið (það er líka garður fyrir framan) og gegnum dyr á girðingunni milli okkar sem Thomas, duglegi maðurinn, bjó til. Þá kemst ég inn í garðinn hans sem er fullur af alls konar vaxandi grænmeti.
    Í gær stóð Thomas hálf umkomulaus fyrir utan bílinn sinn og beið eftir mér, klæddur sínum gráa tennisbúningi. Við settumst inn í bílinn hjá honum. Hann dæsti. Ég spurði hvort hann væri ekki okey. Jú, jú hann var okey en ég fékk þó að vita að Thomas var víst ekki sérstaklega vinsæll heima hjá sér fyrir að skipuleggja tennisleik þetta síðdegi. Kona hans vildi að hann spilaði við sig og varð hálffúl að hann tæki tennisleik við mig framyfir tennisleik við hana. Kannski var það þess vegna – vegna þess hve Thomas hafði vonda samvisku – að hann tapaði fyrsta setti 6-0.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.