Espergærde. Vont sæti, brengluð sýn?

Þegar ég horfi yfir íslenska menningarsviðið finnst mér ég stundum sitja í voðalega vondu sæti og ég velti því fyrir mér hvort það geti verið að útsýnið, þaðan sem ég sit, sé á einhvern hátt brenglað. Eða hvort það sem gerist á sviðinu fyrir framan mig sé í raun og veru jafn brenglað og það virðist frá mér séð.

Ég sit og horfi:

Fremst á sviðinu er 11 ára fatahönnuður. Menningarsíður blaðanna eru fullar af sögum um áhugamál þessa barnunga hönnuðar. En úti í hinum myrkari skotum sviðsins pukra nokkrir rithöfundar við eftirlætisíþrótt landsmanna; að skrifa í hugaræsingi á facebook. Textarnir eru stuttir og auðskiljanlegir öllum, og krefjast hvorki nokkurrar ritfærni né æfingar í lestri. Hér er ekki föndrað. Á sviðinu er harðduglegi maðurinn frá landsbyggðinni Eiríkur Örn og skrifar til allra vina sinna á facebook og biður um hjálp. Hann stendur frammi fyrir þeim mikla vanda að ákveða hvort hann eigi að segja STUNDINNI upp. Hann verði alltaf svo reiður og fullur af gremju þegar bókaumfjöllun Stundarinnar hefst á haustin.

Innar á sviðinu situr sagnamaðurinn Einar Kárason og skrifar líka á facebook. Hann virðist þegar orðinn reiður eða er það eitthvað annað sem amar að honum? Hann ákveður, í hugaræsingi, að gefa vini sínum á facebook ráð: „Sé að þú hótar fyrirfram að segja upp menningarumfjöllun í Stundinni ef hún skrifar ekki eins og þér hentar. Sem betur fer þarf ég ekki að segja upp þessum Sterafugli, þaðan sem aldrei kemur neitt nema skítur og skömm.“

Þótt  landsbyggðarmaðurinn sýni áhorfendum með látbragði sínu að hann sé bara kátur og glaður, og láti ekki sagnameistara af höfuðborgarsvæðinu æsa sig upp, virðist frá mínu vonda sæti sem hugaræsingurinn og illskan hafi líka smeygt sér inn í sál og huga ljóðskáldsins með harðkúluhattinn þegar hann skrifar svar til góðvinar síns á facebook: „Ertu aldrei edrú á facebook lengur, Einar minn?“

Nú bölva ég í hljóði yfir hvað sætið mitt sé vont. Var ekki einhver vottur af væntumþykju og gleði í svarinu? „Einar minn.“ Það er nú fallega sagt.

Ný sena. Framarlega á sviðinu standa tvær blaðakonur og spjalla alvarlegar í bragði við rithöfundinn Stefán Mána. Þær hafa fengið stórt verkefni hjá Fréttablaðinu. Viðtal við skáld. Viðfangsefni samtalsins er minnkandi sala bóka á Íslandi. Rithöfundinum liggur mikið á hjarta, lætur móðann mása og talar hratt. Hann telur sig hafa skýringar. Blaðakonurnar hlusta íhugular en fá ekki, vegna hugaræsings rithöfundarins, komið með gagnrýnar mótspurningar (það á eftir að koma þeim um koll): „Að mínu mati er snobbið að drepa íslenska menningu,“ hálfhrópar rithöfundurinn. Búningahönnuður viðtalsins hefur ákveðið að Stefán skuli klæðast svörtu og á svörtum stuttermabol skáldsins eru kolkrabbar og vont fólk úr Star Wars. „Íslenskir höfundar upp til hópa skrifa bækur í þeim tilgangi að fá hól og verðlaun hjá einhverri elítu í stað þess að skrifa fyrir almenning, föndra við stíl í stað þess að segja sögur,“ heldur svartklæddi höfundurinn áfram

Ný sena. Bókaherbergi í fjármálahverfinu í Reykjavík. Póstnúmer 105. Bragi Ólafsson, sem líka er rithöfundur eins og Stefán Máni, dregur fram bók Stefáns Mána, Svartur galdur og les blaðsíðu 16 og hálfa blaðsíðu 17. Hann fussar og í huga hans geysar stormur. Hann er búinn að lesa stóra viðtalið við Stefán Mána. Hann ákveður að skrifa á síðuna sína þrátt fyrir hugarstorminn: „Mér líður svolítið eins og ég hljóti að vera einn af „föndurhöfundum“ Stefáns Mána.“ Bragi lítur upp og horfir út til áhorfenda. Hann ætlar að koma með yfirlýsingu: „Ég er sjálfur íslenskur almenningur… Ég skrifa fyrir íslenskan almenning sem hefur borgað mér, fyrirfram, fyrir að skrifa sögur fyrir sig.“  Ég sperri eyrun en ég er hræddur að mér hafi misheyrst. Ég bölva því enn hvað ég sé langt í burtu.

Bragi sest aftur niður. Í huga hans geysar enn óveður og það er ekki útlit fyrir að það lægi í bráð í huga skáldsins en hann skrifar samt: „Stefán Máni getur sjálfur verið föndurhöfundur. Ég las blaðsíðu sextán og sautján í bókinni hans. Og þar er augljóst föndur. Sjáiði bara! Hér eru setningabrot úr bókinni Svartur galdur. Þetta er hreint föndur: Hennar [augu] eru stór og brún, hlý eins og síðkvöld á Spáni … Það er ljósið sem býr til skuggann … Haustið er hægur dauði, þunglyndi náttúrunnar. Hm,“ skrifar Bragi.

Já, svona birtist hún mér íslenska menningarumfjöllunin. Skökk mynd? I don’t know, ég sit í vondu sæti. Hér í Danmörku, á Louisiana safninu rétt við heimili mitt, er bókmenntahátíð. Hátíðin virðist gleðja marga og á safninu eru þúsundir manna. Ég birti mynd úr einu dagblaðanna sem taldi sig þurfa að gera grein fyrir því sem gerist í heimi bókmenntanna með því m.a. að spjalla við einn af gestum hátíðarinnar,  ameríska höfundinn Siri Hustvedt.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.