Espergærde. Auðnuleysinginn

Hó! Nýr dagur. Og það fyndna er að ég er aftur kominn á kaf. Ég sem er síðhærður og atvinnulaus. Auðnuleysingi. Ég hef bæði sjálfviljugur sett mig undir pressu þar sem ég píska mér áfram í þýðingunni fyrir Palla. Ekki minna en 8 síður á dag, það er að segja hálfan vinnudaginn, þar sem ég er í hálfu starfi hjá Politikensforlag við að hjálpa þeim af stað með sitt nýkeypta Hr. Ferdinandforlag. En svo kom líka óvænt tilboð í gær sem ég get bara annað en gripið. Aldeilis skemmtilegt verkefni, verkefni sem passar mér fullkomlega. En vandinn er sá að ég má ekki segja múkk um það við nokkurn mann. Og þetta er umfangsmikið verkefni með banalínu sem er alltof nálægt. Hér eftir kalla ég verkefnið í Betsy í höfuðið á fellibylnum fræga, sem geysaði yfir hafinu suður af Íslandi í nokkra daga í september árið 1961.

Í gær gat ég varla dregið andann af spenningi, mér fannst svo gaman! Ég sat og gruflaði hvernig ég gæti gert gagn, hvað ég hefði fram að færa í þessu Betsy-verkefni. Ég sat upp í sófa, skrifaði niður og gleymdi mér alveg. En vaknaði upp rétt fyrir hálfátta í gærkvöldi þegar nágranni minn Lars kom og sótti mig á aðalfund tennisfélagsins. „Mikilvægt að mæta,“ sagði Lars, „ný stjórn verður kjörinn.“ Og satt var það, ný stjórn var kjörin og fráfarandi formaður, sem steypt var af stóli fyrir nokkru vikum, flutti tilfinningaþrungna kveðjuræðu.

Þetta var átakanleg stund fannst mér. Formaðurinn fyrrverandi var mjög þrúguð af kveðjustundinni og hvernig hún hafði þurft að yfirgefa formannsstól. Tárin runnu í stríðum straumum niður kinnarnar þegar hún las varnarræðu sína. Henni fannst hún vera órétti beitt, hún hafði lagt líf og sál í formannsstarfið og nú var henni ýtt út með skít og skömm. Ég vorkenndi konunni sárlega.

Þegar ég kom heim af fundinum í gær ákvað ég að leggjast upp í rúm klukkan hálftíu, ég þurfti að lesa mikilvæga lesningu fannst mér. Ég lagðist á koddann með bókina mikilvægu og byrjaði að lesa en mér til sárra vonbrigða átti ég erfitt með að halda mér vakandi. Augun vildu bara lokast, sama hvað ég reyndi. Ég sagði því við Sus sem lá við hliðina á mér og las í Bill Bryson-bókinni um ferðir hans um Ástralíu, Down under.
 „Hó, Sus, ég ætla að sofa í 10 mínútur og vakna svo aftur hress til að lesa fram á nótt.“
„Jeps! Gerðu það bara,“ sagði Sus og ég heyrði að hún hafði sínar efasemdir.
Ég hélt mínu striki. Lagði höfuðið betur á koddanum, dró sæninga upp undir höku og lokaði augunum. Ég sofnaði samstundis og vaknaði ekki fyrr en Sus ýtti við mér og spurði hvort ég nennti ekki að slökkva ljósið.
„Uhh, hvað er ég búinn að sofa lengi?“
„Klukkutíma.“
„Ó, í klukkutíma! Ég ætla að lesa aðeins.“
„OK, góða nótt,“ sagði Sus.

Það tók mig ekki nema 17 sekúndur að átta mig á að ég var gersamlega á valdi svefnsins og átti engann séns að halda mér vakandi yfir lestri. Ég slökkti ljósið og fór að sofa. Yo!

Í tilefni dagsins birti ég mynd af fellibylnum Betsy.

Betsy-fellibyl-120961

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.