Espergærde. Leiðangrar

Það er laugardagur hér í Espergærde og sólin skín. Ég hafði hugsað mér að nota daginn í bóklestur en nú skynja ég að Davíð vill meiri aksjón, aksjón sem mér er blandað í. Hann vill að við förum í leiðangur. Hm. Á morgun hefur duglegi maðurinn pantað sjóleiðangur, fiskitúr með drengina, Davíð og Andreas, á gömlum fiskibát út frá Helsingör og sigling um Eyrarsundið með veiðistöng að vopni. Ég er ekki mikill áhugamaður um fiskveiðar en ég læt mig hafa það því Davíð þykir þetta mikið fjör. En það stefnir í tvo leiðangra á tveimur dögum.

Áætlanir mínar um bóklestur fara dálítið út um þúfur þessa sólarhringana. Í gær ætlaði ég að sökkva mér í bók sem ég hlakka mjög til að lesa. Fyrst þurfti ég að sjá landsleik í fótbolta, Danmörk á móti Póllandi. Frábær fótboltaleikur. Að leik loknum tók ég fram bókina en skyndilega fékk ég líka þessa svakalegu magapínu. Ég hafði borðað það sem Danir kalla flæskesvær, sem er bara fita af svíni böðuð í salti og ofnsteikt. Ég hef sennilega borðað of mikið af þessu feitmeti því skyndilega þurfti ég bara að æla. Ég hljóp fram á klósett og kúgaðist yfir tilhugsuninni um flæskesvær. Ekkert varð úr bóklestri, því rúmið var of freistandi í þessari magakveisu.

Já, það er spurning hvert dagurinn ber mig. Leiðangur!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.