Espergærde. Karlmenn á joggingbuxum

Hó. Við Davíð erum nýkomnir úr bátssiglingu um Eyrarsund þar sem ég sat á fiskibátnum og naut sólarinnar á meðan Davíð veiddi síld og makríl.  Ég fylgdist með á mínum gallabuxum. Aðrir á bátnum héldu á veiðistöng og voru í joggingbuxum, margir með þrjár renndur niður eftir hliðinni. Allir á bánum voru karlmenn, flestir með gulleyrnarlokk í vinstra eyra, með doughnut-skegg og annað hvert orð var „lort, man“. Þetta var sem sagt ekki mitt fólk.

En siglingin var ágæt.

Þegar ég kom heim ákvað ég að halda pizzuveislu úti á veröndinni bak við húsið mitt síðar í dag. Þar stendur pizzaofn frá Ítalíu. Til veislunnar eru allir velkomnir. Fyrsta pizzan kemur út úr ofninum klukkan 17:30. Yo! Enginn hefur boðað komu sína svo kannski borða ég 12 pizzur aleinn.

Ég las áðan viðtal við Berg Ebba, skáld sem ég er nokkuð hrifinn af, en viðtalið fannst mér handónýtt og setti mig í 30 sekúndna fýlu. Höfundur viðtalsins kallar sig Lomma, manninn þekki ég ekki, en nálgun hans á ágæta bók Bergs Ebba, Stofuhiti, fannst mér ansi hreint óáhugaverð. Sorry. Röfl um hvort bókin hans Bergs gæti flokkast sem ljóðabók eða ekki. Ég er nú þannig gerður – ófullkomleiki minn er svo gagnger – að mér er hundsama hvernig maður flokkar bækur. Ég get kannski undrað mig á flokkunarniðurstöðu en svo nær það ekki lengra. Mér er líka alveg sama þótt einhver vilji flokka Morgunblaðið undir skáldsögu. Það breytir engu. Það breytir bara engu. Morgunblaðið er og verður Morgunblaðið á meðan ég les og þar og á eftir. Stofuhiti er og verður Stofuhiti þótt maður kalli bókina ljóðabók. Bókin hans Bergs er áhugaverðari en svo að maður nenni að eyða sekúndubroti í að finna henni réttan flokk í Dewey-kerfinu.

En fyrir þá sem ekki þekkja bandaríska bókasafnsfræðinginn Melvil Dewey þá var það hann sem árið 1876 bjó til svokallað DDC kerfi sem flest, ef ekki öll, heimsins bókasöfn nota til að velja bók réttan stað í hillukerfinu. Og ég get fulvissað lesendur um að Stofuhiti Bergs Ebba færi ekki undir „ljóðabækur“ í bóksafninu hans Mervil Dewey, mætti hann bara ráða í rólegheitunum.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.