Espergærde. Fyrirspurnir ókunnugra

Ég er sannarlega gráðugur maður. Ég vil svo margt í einu, alltof margt. Það liggur stór stafli af bókum sem mig bæði langar og ég þarf að lesa, á sama tíma langar mig bæði að spila tennis, fótbolta, horfa á fótbolta, þýða, vinna og hugsa um fjölskylduna. Allt þetta vil ég svo mikið og í svo miklu magni að ég hugsa oft, og í alvöru, að ég vildi óska að ég þyrfti ekki að sofa.

Nú les ég, með öðru, bók breska glæpasagnahöfundarins PD James, Saklaust blóð. Ég er alls ekkert hrifinn af bókinni (og stundum hugsa ég hvort ég sé að sóa tíma mínum) en ég er bara svo forvitinn að sjá hvernig höfundurinn útfærir sitt heimsfræga twist. Ég hef svo oft lesið um þessa bók og hvað hún sé meistaralega vel uppbyggð og svo kemur twistið með kjarnorkukrafti. Og af því að ég hef unnið með bækur allt mitt líf vekur þetta forvitni. Bókin er langdregin, langar lýsingar á innanstokksmunum og framvindan er hæg. Og ekki hjálpar það bókinni að það er eitthvað í þýðingunni sem truflar mig (ég les bókina á íslensku). Ég hef tekið ensku bókina fram til að sjá frumtextann og get þá vel séð að Álfhildur Kjartansdóttir hefur þýtt bókina af mikilli nákvæmni, en það er bara eitthvað við orðaval og orðaröð þýðingarinnar sem truflar mig.

Ég les sem sagt þessa heldur langdregnu glæpasögu, en ég hef sannreynt það á öllum mínum bóklestri, að allir lesnir textar breyta manni. Það skiptir ekki máli þótt maður muni ekki orð frá orði það sem maður les. Ósjálfrátt tekur maður til sín ólíkar skoðanir og þær ólíku tilfinningalegar sem bækur miðla. Þetta gefur manni sveigjanleika, og kannski víðsýni,  sem manneskja. En þessi vitneskja, sveigjanleiki og víðsýni sem maður öðlast við bóklestur gefur manni líka vald.

Já, ég hef fengið nokkrar fyrirspurnir frá kunningjum hvernig heimsókn gærdagsins, frá Effa hefði verið. (Það var annars svolítið fyndið að ég fékk tölvupóst í gær frá ókunnugum manni – ég veit ekkert hver maðurinn er, og ég geri ráð fyrir að hann hafi verið að stríða mér –  með fyrirspurn um hvernig heimsóknin hefði verið.) En ég get upplýst alla, eitt skipti fyrir öll, að heimsóknin var í alla staði stórkostleg. Inga kom með Effa og þetta var bara eðalheimsókn, bæði skemmtilegir gestir og áhugaverðir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.