Espergærde. 1. Ég geng. 2. Ég hlusta. 

„Reykjavík. Ömurleikans aðalpláss,“ segir Guðmundur Andri að Thor, pabbi hans, hafi stundum kallað höfuðstað Íslands. Ég var ekki að hugsa um staðinn, borgina, heldur bara  um orðin. Það er svo mikill kraftur í þessum orðum. „Hann var þannig rithöfundur að það sem hann skrifaði, það leiftraði á einhvern máta,“ segir Guðmundur Andri, „og allar setningar hjá honum eru leiftrandi og sérkennilegar, þó hann sitji bara á kaffihúsi, og sé að hugleiða með sjálfum sér, eða rekja einhverja atburði dagsins, eða bara skima í kringum sig og skrá það sem fyrir augu ber, þá er þetta alltaf sérkennilega leiftrandi allt sem hann skrifaði.“

Ég hlustaði á Lestina – útvarpsþáttinn um menningarlíf  – á leið minni til vinnu í morgun og þar voru þessi orð sögð. Ég er venjulega á ferðinni rétt fyrir átta á morgnana og þá er litli bærinn minn iðandi af lífi. Foreldrar að flytja börnin sín í skólann, eða barnaheimilið. Margir þeysa á hjólum með börnin sín í einhvers slags stólum tengt höfuðreiðhjólinu, aðrir ganga og halda í hönd barna sinna og enn aðrir nota enn aðra ferðamáta. Espergærde er ekki ömurleikans aðalpláss, þvert á móti. Hér er ró og gleði. Harmonía og yndisleiki. Hér sér maður ekki fólk deila á götum úti. Menn brosa, vinka og óska hver öðrum góðs dags.

Þegar ég geng í gegnum mannþvöguna í kringum barnaskólann hef ég oft útvarpsþáttinn Lestina í eyrunum. Hlaðvarp er sending frá himnum fyrir mann eins og mig. Ég reyni að nýta hverja mínútu til að heyra, sjá eða lesa eitthvað skemmtileg, gáfulegt eða sem vekur mann til umhugsunar. Göngutúrinn á morgnana er góður; ég geri tvennt í einu, 1. ég geng, 2. ég hlusta.

Í dag heyrði ég sem sagt á spjall Guðmundar Andra og Eiríks Guðmundssonar í útvarpsþættinum um það sem Guðmundur Andri kallar afbyggingu bernskuheimili hans. Hann og Örnólfur bróðir hans hafa flokkað allt það dót sem Thor lét eftir sig þegar hann dó. Þetta eru minnisbækur, bréf, pappírar, myndir og alls konar dót sem fylla meira en eitthundrað hvíta og fína kassa. Og um þessa iðju þeirra bræðra spjölluðu Eiríkur og Guðmundur. Þetta var gott samtal.

Að lokinni hlustun (síðasta hluta þáttarins hlustaði ég á inni á skrifstofunni minni, í stól fyrir framan tölvuna mína) hugsaði ég með mér. Þvílík gæfa er það fyrir litla þjóð að svona góður útvarpsþáttur er fluttur á skikkanlegum útsendingartíma. Ég er sannfærður um að þjóðin verður betri þjóð á að hlusta á svona fínt útvarpsefni eins og Lestina.

ps. ef einhver hefur áhuga á að heyra samtalið þá er tengillinn hér.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.