Espergærde. Heimsins bestu fréttir

Hingað á skrifstofuna til mín, þar sem ég sit yfir rjúkandi kaffibolla og hlusta á gamlan útvarpspistil Halldórs Armand (og hann er góður pistlaflytjandi), kom kona með blað handa mér. Þetta blað, einkonar dagblað en kemur út mánaðarlega, heitir VERDENS BEDSTE NYHEDER og einbeitir sér að því að flytja jákvæðar og uppbyggilegar fréttir. Ef maður les þetta blað er allt á uppleið í heiminum.

Í blaðinu sem ég hef undir höndum eru fluttar fréttir af því að nú um stundir fjölgar þeim mjög sem eru læsir í heiminum. Og það er sérstaklega í Afríku og Suður-Asíu sem þróunin hefur verið hröð. Á mörgum stöðum í Norður-Afríku geta meira en 90% fólks á aldrinum 15-24 ára lesið og skrifað.

Í sama blaði las ég líka að árið 2016 sluppu 38 milljónir manna út úr því sem kallast extrem fátækt. 67% ungs fólks er nú á netinu. Og í Bangladesh hefur verið komið upp 4 milljónum sólarrafhlöðum á einkahús. Nú getur fólk í Bangladesh sem sagt lesið með ljós frá sólarrafhlöðum. Góðar fréttir.

ps. Ég fékk góða kveðjur frá einum af mínum góðu vinum. Auðvitað varð ég fyrst og fremst glaður að fá kveðjuna en hann fékk mig líka til að brosa breitt, sem líka er gott. Í bréfi sínu sagði hann meðal annars: „Gáfur voru fínar á 20. öld, en nú er það hjartað sem blífur, við fylgjum því.“ Þetta fannst mér fyndið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.