Skodsborg. Í félagi með ritara

Það er þungskýjað yfir Sjálandi í dag. Föstudagur og jógatími í morgun. Mér finnst mér ekki fara sérstaklega mikið fram í jógamennsku. Enn er ég óliðugur eins og spítukall. En jógatímanum er lokið. Serpikus, jógakennarinn tilkynnti að hún hefði selt húsið sitt, og hún var mjög glöð.  Í dag snýst dagurinn, föstudagurinn, um spítalavist. Sus liggur í þessum skrifuðu orðum hér inni á skurðarborði á skurðstofu Strandsvejshospitalet í Skodsborg. Ég sit í biðsalnum og bíð eftir að hnjáaðgerðinni ljúki svo við getum keyrt heim saman.

Hér í biðsalnum sit ég einn, það er að segja enginn bíður neins nema ég. Hér er þó ritari sem á víst að taka á móti sjúklingum eða öðrum sem leita upplýsinga. Enginn leitar þjónustu hennar þar sem hún situr bak við móttökuborðið sitt og því malar hún í símann til að stytta sér stundir. Mér finnst hún pínulítið pirrandi, ritarinn, því hún gerir einhvern veginn sitt ítrasta til að fanga mig inn í samtalið. Stundum er líkast að hún beini orðunum sínum til mín þegar hún ræðir við vin sinn eða vinkonu í símann. Hún talar óþarflega hátt og horfir dreymandi í átt til mín. Ég er ekki viss hvort hún sjái mig eða hvort hún dvelji í innri draumaheimi á meðan hún ræðir einhverjar óskaplega fyndar facebookfærslur sameiginlegs kunningja. Og það er eins og ég hafi alla tíð verið með í þessari rosalega fyndnu facebook-grúppu, allt látbragð ritarans er á þann veg að ég ætti að skilja það sem fram fer. Það liggur við að ég gangi þau fimm skref sem eru á milli okkar og leiðrétti þennan misskilning; ég er ekki með í fyndnu facebookgrúppunni.

Það nálgast hádegi og ég er svangur. Út um glugga biðsalarins sé ég að næsta hús við hlið spítalans er Skodsborg Kurhotel Spa, eins og stendur á hvíta fánanum sem blaktir beint fyrir framan nefið á mér í biðsalnum á þriðju hæð spítalans. Ég fer bráðum út og fæ mér eitthvað í gogginn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.