Espergærde. Fjölskylduuppgjör.

Ég las viðtal við hinn nýja höfund Millenium-bókanna, David Lagercrantz, í Jyllands-Posten i morgun. En eins og margir vita tekur hann við af Stieg Larsson að segja sögu tölvuþrjótsins með vondu barnæskuna, Lisbeth Salander og blaðamannsins gagnrýna, Mikael Blomkvist. Nýja bókin hans er sú fimmta í Milleniumröðinni (Stieg Larsson skrifaði fyrstu þrjár áður en hann dó) og kom út í gær. Ég velti vöngum yfir viðtalinu þar sem höfundur eyðir mestu púðri í að segja frá lífi sínu í skugga föður síns. Og að lifa lífi þar sem faðirinn, eða andi hans, er allt umlykjandi. Pabbi Davids var einn af þekktustu bókmenntajöfrum Svíþjóðar á síðustu öld.

Hér kemur smáinnskot, eins konar bókmenntamoli. Fyrsta Millenium bókin kom út árið 2005, einu ári eftir að höfundurinn lést. Stieg Larsson hafði fyrir andlát sitt skrifaði þrjár bækur sem hafa nú selst í um það bil 82 milljónum eintaka. Útgáfa bókanna er svokallaður gullkrani. Gullið flýtur. Árið 2013 gáfu rétthafar Millenium bókanna sænska bókaforlaginu Norstedt leyfi til að endurlífga bókaflokkinn og ráða til þess David Lagercrantz (sem þekktastur er fyrir að hafa ritað ævisögu Zlatans) til að skrifa inn í bókarheiminn sem Larsson hafði skapað. David gerði samning um að skrifa þrjár bækur. Sú fyrsta frá hans hendi kom út haustið 2015 (við hávær mótmæli vina og fyrrum sambýliskonu Stiegs Larsson, sem kölluðu útgáfuna „grafarrán“ eða „grófa misnotkun á velgengni Stiegs Larsson“) og fékk titilinn Það sem ekki drepur mann. Móttökur gagnrýnenda í heimalandinu voru mjög hálfvolgar en í útlöndum gekk salan glimrandi vel. Bókin hefur selst í yfir 6 milljónum eintaka á heimsvísu. Nýja bókin í Milleniumflokknum hefur fengið íslenska heitið Stúlkan sem gat ekki fyrirgefið. Þetta var útúrdúr.

„Ef þú hefðir átt föður eins og ég værir þú alltaf í samkeppni. Að endingu vil ég auðvitað taka fram úr honum, svo það sé ég sem dæmi hann, veg hann og met. Það væri hinn endanlegi sigur – einhvers konar hefnd,“ segir David. „Frá því ég var ungur maður lifir stöðugt í mér, og vill aldrei hverfa, að hann sagði eftir að hafa lesið eitthvað af skrifum mínum: Ekkert sem þú skrifar, skrifar þú af alvöru, David. Þetta varð mér gífurlegt áfall. Ég ber þetta sár allt lífið, tilfinninguna að vekja vonbrigði. Tilfinninguna að pabbi minn sá í mér, á unga aldri, getu og hæfileika sem honum fannst ég ekki nýta.“

Allt er þetta nógu áhugavert en það sem vakti furðu mína var að David Lagercrantz eyddi þessu mikla púðri í uppgjör við föður sinn þegar hann hefur skrifað glæpasögu sem ekkert hefur með föðurinn að gera – eða svo virðist ekki alla vega – og á bara að vekja áhuga glæpasagnalesenda og seljast. Mér fannst þetta tal ekki vekja áhuga minn á bókinni og heldur ekki höfundinum.

Ef ég hefði skrifað bók sem fólki þætti svo merkileg að hún réttlætti, eða kallaði á, viðtal í heimspressunni mundi ég sennilega ekki eyða öllu púðrinu í gamalt fjölskylduuppgjör. Ne-ei.

ps þeir sem vilja vita hvernig hnésjúklingurinn, Sus, hefur það upplýsist að hún hefur það gott miðað við aðstæður. Svaf ágætlega í nótt með hjálp verkjalyfja og er farin að staulast um.

pps Það hafa verið nokkrar fyrirspurnir um Betsy-verkefnið sem ég er þátttakandi í. Áhugasömum til upplýsingar get ég sagt að ég hef lokið fyrsta áfanga af sennilega áttatíu og fimm. Skiladagur 2018 svo ég þarf svo sannarlega að halda rétt á spöðunum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.