Espergærde. „Áttu ekki regnfatnað, vinur?“

Það rigndi fílum og gíröffum í gær í smábænum mínum. Svo mikið var regnið í gærmorgun að það var eins og heil lúðrsveit marseraði á þakinu hjá mér. En þrátt fyrir regnið var friðsælt inni eldhúsinu þar sem ég sat og þýddi. Ég var elleftu síðum á eftir áætlun svo ég hafði hugsað mér að ná í skottið á hinum áætlaða sjálfum mér. Á meðan ég skrifaði, með regnið trommandi á þaki og gluggum, rigndi inn tölvupóstum frá vinum og kunningjum; nýort vísa, kveðjur frá gömlum sambýlingi, lýsingar frá bókmenntahátíð í Reykjavík, bókmenntagetraun, slúður úr Reykjavík og svona má lengi telja. Inni í stofu lá Sus með hnéð í fatla og fótinn upp í loft.

Ég náði ekki alveg að þýða síðurnar ellefu í gær svo ég geri það síðar í dag. Í stað þess að pína mig til að klára þýðingarskammtinn ákvað eftir nokkra setu að ganga út í regnið. Ég er ekki maður sem á regnfrakka eða regnhlíf og heldur ekki regnskó, því varð ég strax holdvotur þegar ég gekk út Søbækvej og upp eftir götum bæjarins. Eins og nærri má geta var ég einn í fylgd með regninu. Enginn virtist voga sér út í þetta úrhelli. Sumir pollarnir á götunum voru ökladjúpir en ég sneiddi laglega fram hjá þeim. Fyrr en varði var ég staddur upp við íþróttasvæðið hér í bænum. Þangað er um það bil tuttugu mínútna labb. Tennisvellirnir liggja fyrir neðan fótboltavellina og hér ver ég töluvert af frítíma mínum. Enginn virtist heldur hafa hætt sér hingað út. Veitingasalan við fótboltavellina var lokuð og öllum leikjum og æfingum dagsins aflýst. Rennisléttir og skærgrænir fótboltavellirnir voru gæsilegir í þéttri regnþokunni og markið í fjærenda vallarins var horfið í hvítu himinsins.

Ég gekk niður stíginn að tennisvæðinu og stillti mér upp við girðinguna sem umlykur tennisvellina til að fylgjast með regninu róta upp rauðu mölinni á völlunum. Allt var á floti en sumstaðar gægðust litlar rauðmalareyjar upp mitt í pollunum. Ég var blautur inn að skinni en það var hlýtt og mig greip einhver frelsisgleði í þessu regni. Í hrifningarvímu minni sparkaði ég létt í girðinguna og horfði regnvatnið þyrlast af girðingunni. Ég hafði örugglega staðið í nokkrar mínútur fyrir utan tennisgirðinguna við þennan leik minn þegar ég sé eldri mann í síðum, hvítum regnfrakka með hettu koma gangandi hægt  eftir stígnum í áttina til mín. Hann virti mig fyrir sér hálfglottandi, staldraði við og sagði svo:

„Áttu ekki regnfatnað, vinur?“
„Nei, en það gerir ekkert til. Það er svo hlýtt.“
„Þú ert þó ekki að íhuga að spila tennis í þessu veðri?“
„Nei, ég er bara að skoða vellina.“
„Vertu sæll.“

Og svo gekk hann áfram, gamli maðurinn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.