Espergærde. „Meira fjör.“

Á ferðum mínum um Espergærde í morgun, löngu fyrir almennan fótaferðatíma, mætti ég – satt að segja mér til mikillar furðu – tveimur mönnum sem ég þekki úr bæjarmyndinni, en ekki persónulega. Annan kalla ég alltaf í huganum tónlistarmanninn. Hann er svo viðkvæmnislegur, með fíngerðar hendur og döpur augu, og gengur alltaf um bæinn með taupoka. Ég ímynda mér að hann geymi nóturnar sínar í taupokanum.

Hinn manninn sem ég sá var á fljúgandi ferð á hjólinu sínu. Hann er alltaf á fljúgandi ferð á hjólinu sínu, tekur beygjurnar á fullri ferð, upp og niður gagnstéttar og hoppar niður af kantsteinum. Ég veit ekki hvort hann er alltaf of seinn eða hvort þetta sé hans stíll. Hann er jafnan í gráum rykfrakka og með hliðartösku úr leðri yfir öxlina.

Í mínum huga vinnur þessi maður í umhverfisráðuneytinu og hefur yfirumsjón með uppsetningu vindmylla í Danmörku. Ég er hræddur um að hann hafi þurft, fyrir nokkrum árum,  að taka sér hálfsárs frí vegna samstarfsörðugleika í ráðuneytinu. Þannig er það oft þegar maður vinnur á opinberri stofnun, fólk stingur hvert annað í bakið með sínum löngu hnífum. En ég þekki hann ekki og veit satt að segja ekkert um hann. Allt er þetta hugarburður.

Ég las nýlega pistil eftir ungan mann. Ég held að hann hafi mjög ákafan ásetning um að breyta heiminum (bæta heiminn mundi hann segja), það er einhvern vegin áran yfir honum. Í því skyni er hann óþreytandi að benda á það sem miður fer, bæði á Íslandi og yfirleitt í heiminum. Hann skrifar pistla og skrifar ábendingar á facebook. Í pistlinum sem ég las, er lítill útúrdúr þar sem hann segir frá því, að hann í fátækt sinni, hafa leyft sér að kaupa nýja húfu og það hafi veitt honum slíka gleði að hann mundi ekki hvenær hann hafði síðast orðið svona glaður. Þetta var fín frásögn.

Ég hugsaði með mér. Ég held að þessi setning um húfukaupin sé sú setning, af öllum hans mörgu setningum, sem hefur bætt heiminn mest. Allt hans tuð um alla heimsins vitleysinga sem hegða sér illa, og eru generalt skúnkar og vesalingar, hreyfir ekki við svo mörgum, held ég. Ekki þannig að heimurinn verði öðruvísi eða betri á tuðinu. Fólk tuðar saman en það kemur ekki svo mikið gott út úr því. Talið um húfuna fékk mig að minnsta kosti til að trúa á gleðina, og hið góða afl sem gleðin er til að bæta veröldina í kringum okkur. Meira fjör.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.