Espergærde. Tapað sálfræðistríð

Er ákjósanlegt að hefja daginn hjá tannlækni? Ég var að minnsta kosti mættur til tannlæknisins míns, sem er ekkert nema elskulegheitin og tillitssemin, klukkan átta í morgun. En í fyrsta sinn í allri minni sögu í tannlæknastól. sem kannski er ekki svo löng, leiddist mér.  Mér fannst tíminn bara ekki ætla að líða.

Kannski var það vegna þess að mér finnst mín bíða svo mörg aðkallandi verkefni, mitt í auðnuleysinu. Í þessar viku hef ég algerlega helgað Politikens forlag krafta mína. Ég geri það til að flýta afhendingarferlinu á Hr. Ferdinand. Mér finnst ég vera að kafna. Ég vil losna! Mitt stóra leyniverkefni situr á hakanum þar til ég get lokað á Politiken. Og þýðingin fyrir Palla mjakast hægt áfram þar sem ég hef bara unnið við hana á kvöldin síðustu daga.

Ég spilaði fótboltaleik í gær á móti Helsingör-liðinu Vapnagaard. Ég átti ekkert sérstaklega góðan leik. Ég lét nefnilega sóknarmann Vapnagaard vinna mig sálfræðilega. Hann sló mig með olnbogunum frá fyrstu mínútu og ýtti mér í sífellu. Og kvartaði svo við dómarann að ég ýtti honum. Hlægilegt. Ég pirraði mig á honum í stað þess að láta þetta sem vind um eyru þjóta og berja hann bara á móti. Þetta þýddi að ég var of passívur. Það á ekki við mig. Grrr.  Við töpuðum 6-5!! Og við vorum yfir 5-1 þegar 20 mínútur voru eftir af leiknum. Hlægilegt.

Bókmenntamoli. Ég gleymdi að ég ætlaði að minnast á það að 1. september 2017 er merkisdagur í sögu bókmenntanna. Í eftirmála síðustu Harry Potter-bókarinnar (Harry Potter og dauðadjásnin) er lýsing á því þegar Harry Potter fylgir syni sínum, sem er á leið til Hogwartsskólans, inn á Kings Cross lestarstöðina. Og sú sena á að gerast þann 1. september 2017. Já, gaman að þessu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.