Espergærde. Dóni og leiðindapési

Ef ég man rétt – það er svo margt í minninu sem brenglast og aflitast – var bók Roalds Dahl, Matthildur í miklu uppáhaldi hjá dóttur minni Söndru. Ég held að hún hafði líka haldið upp á höfundinn. Fram til dagsins í dag hef ég haft á tilfinningunni að Roald Dahl væri kennaratýpan af gamla skólanum. Vænn, gamaldags náungi sem kunni að segja sögur. En um daginn þegar ég las um Roald kom sitthvað undarlegt í ljós. Hann mun víst hafa verið hinn argasti dóni og leiðindapési. Hann var það sem menn sem tala ensku kalla asshole. Ekki fyndni og skemmtilegi dóninn. Nei, samkvæmt ævisagnaritara hans var hann bæði kven- og gyðingahatari. Hann var svindlaradóninn, frekjudóninn og hrokafulli dóninn. Jeps, þetta er maðurinn sem skrifaði Matthildi. Og svo kemur líka í ljós að sú Matthildur sem Roald skrifaði í upphafi var illgjörn, lítil stúlka sem kvaldi og pyntaði fátæka foreldara sína. Það tók ritstjóra bókaforlagsins, Stephen Roxburgh, vikur og mánuði að beina höfundinum á farsælli brautir með Matthildi. (Í framhjáhlaupi: Roald Dahl átti afmæli í gær, 13. september, þess vegna hefur mikið verið ritað um hann síðustu daga um allan heim. Hann hefði orðið 101 árs í gær.)

Roald var alræmdur fyrir að móðga fólk, sérstaklega aðra rithöfunda, og almennt var hann bara leiðinlegur við alla. Fyrsta kona hans, Patricia Neal, tók upp á því á síðari árum hjónabandsins að kalla hann Roald the Rotten. Þótt hann væri fúlmenni hið mesta skrifaði hann ansi fínar bækur.

Í ævisögu sinni skrifar Robert Gottlieb, sem um árabi einn af aðalmönnunum á Knopf forlaginu bandaríska, svolítið um samskipti sín við Roald Dahl:

„Hegðun hans gagnvart starfsfólkinu var bæði svo gróf og krefjandi að enginn vildi vinna með honum. Roald gat verið gífurlega sjarmerandi en eftir því sem árin liðu varð hegðun hans inni á forlaginu sífellt óútreiknanlegri og durtslegri. Hann meðhöndlaði ritarana sem sína einkaþjóna, hann tók æðisköst á starfsfólkið bæði á skrifstofunni og í bréfum sem hann sendi á útvalda starfsmenn. Þegar Bob Bernstein, hinn frægi forstjóri Knopf/Random House, neitaði að fallast á ögrandi og hóflausar peningakröfur höfundarins svaraði Roald fullum hálsi í bréfi sem ósaði af gyðingahatri. (Bob Bernstein var gyðingur).

Síðasti þráðurinn í örþunnu sambandi Roalds og forlagsins slitnaði þegar höfundurinn fór hamförum yfir skorti á blýöntum. Árið 1980 sendi Roald Dahl bréf til Knopf forlagsins, stílað á Robert Gottlieb, þar sem hann tilkynnti að bráðum væru allir blýantarnir hans uppurnir. Nú skyldi Gottlieb sjá til þess að einhver af forlagsskrifstofunni, sem bæði væri hæfur en líka fagur, keypti handa honum 12 blýanta af gerðinni Dixon Ticonderoga, 1388–2-5/10 Medium. Gottlieb tók þessari beiðni Roalds sem hverri annarri gamansemi og gleymdi bréfinu. Þremur mánuðum seinna sendi Roald annað bréf til Gottlieb og ítrekaði ósk sína um blýantana. Ritari Gottliebs brást þá snarlega við og sendi 12 blýanta, sem líktust Dixon blýöntunum. Roald var alls ekki ánægður og kvartaði hástöfum undan blýöntunum sem honum bárust, að þeir voru ekki af þeirri gerð sem hann hefði óskað eftir og að auki hafði hann fjölmörg önnur umkvörtunarefni. Í lok bréfsins hótaði hann að flytja bækur sínar til annars forlags. Gottlieb fékk nóg og sendi Roald bréf.

„Kæri Roald

Þessi skrif eru ekki svar við ákveðnum atriðum í þeim bréfum sem þú hefur ritað til mín og samstarfsmanna minna upp á síðkastið, heldur almenn viðbrögð við því sem við höfum heyrt frá þér síðustu ár.

Í stuttu máli, og eins hlutlaust og ég get orðað hugsanir mínar:  Frá þeirri stundu sem þú fékkst þá flugu í höfuðið að við Bob Bernstein höfum boðið þér lélegan útgáfusamning hefur hegðan þín gagnvart okkur verið á þann máta að ég hef aldrei á mínum ferli reynt aðra eins ókurteisi og frekju. Upp á síðkastið ertu farinn að tala við starfsfólk hér – starfsfólk sem ekki er í stöðu til að svara fyrir sig –  með áður óheyrðum hrottaskap. Fyrst kenndi ég þessa hegðun þína þeim líkamlegu kvölum sem þú þjáðist af og á þann hátt afsakaði ég þig. En nú hef ég komist að þeirri niðurstöðu að þú njótir þess að taka æðisköst og kúga okkur á þann hátt.

Hótun þín að hverfa á braut, segja skilið við Knopf forlagið, eftir að samningur okkar rennur úr gildi, skiptir okkur engu máli. Okkur þætti leitt að missa þig af fjárhagslegum ástæðum en þær ástæður vega ekki nógu þungt til að við finnum okkur lengur í hegðun þinni gagnvart okkur. Ég hef lagt hart að mér við að ritstýra bókum þínum, en ég hef þegar ákveðið að ég vil ekki taka að mér vinnu við fleiri af bókum þínum. Þér hefur tekist að gera allt útgáfuferli bóka þinna að einberum leiðindum fyrir okkur öll.

Svo ekkert fari á milli mála, leyfi ég mér að snúa hótun þinni við: Ef þú ferð ekki að hegða þér eins og maður gagnvart okkur höfum við engan áhuga á að gefa út bækur þínar. Þar að auki mun hvorki ég, né aðrir á forlaginu, svara bréfum frá þér sem við teljum ruddaleg.

Með kveðju
Robert Gottlieb“

Svo mörg voru þau orð. Ég kannast meira að segja sjálfur við að hafa skrifað svipað bréf til eins af samstarfsmönnum Bjarts fyrir mörgum árum. Það endaði allt vel.

roald dahl

En Roald var svakalegur í gyðingahatri sínu. Í gömlu viðtali segir hann: „Það eru þættir í persónuleika gyðinga sem kalla fram óvild … Ég á við að það eru alltaf ástæður fyrir því að hópar af anti-einhverju verða til; meira að segja mannfýla eins og Hitler áreitti gyðinga ekki að ástæðulausu.“ Voff!

Þetta var langur pistill um Roald.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.