Espergærde. Er hún ekki kona?

Ég var, eins og oft áður, fyrstur á fætur í morgun hér á Søbækvej. Fuglarnir voru ekki einu sinni vaknaðir, eða það ályktaði ég, þeir voru að minnsta kosti ansi þegjandalegir þegar ég gekk út á veröndina til að anda að mér morgunloftinu. Gattuso kötturinn minn gekk með mér út. Hann hegðar sér eins og hundur, eins og Palli bendir óaflátanlega á, því kisi fylgir mér hvert fótmál.

Gattouso er ekki hundur og heldur ekki karl, eins og nafnið bendir til, hann er kvenkynsköttur. En nú hafa menn (samheitið yfir karla og konur) – þ.e.a.s sérfræðingar sem bæði eru karlar og konur – í útlöndum efast um að Ellena Ferrante, ítalski höfundur Napólíseríunnar, sé kona og líklegast sé að hún sé karlkyns. Og meira að segja bendir flest til að verki sé einn ákveðinn karlkynshöfundur.

Alþjóðlegur hópur málvísindamanna (samheiti yfir karla og konur) hefur nú tölvugreint bækur Ellenu Ferrante og borið saman við 150 texta 40 annarra ítalskra rithöfunda. Þessi hópur glímir við vandann: Hver er Ellena Ferrante? Bækur Ellenu hafa selst í tugmilljónatali um allan heim og stór hópur lesenda gleypir bækur höfundarins í sig. Enginn veit með vissu hver felur sig bak við nafnið, og margir eru forvitnir, finnst skipta máli hver höfundurinn er í raun og veru og vilja ekki láta þessa spurningu ósvaraða. Sjálf vill Ellena Ferrante vera í friði á bak við dulnefni sitt:

„Ég hef þegar gert nóg fyrir þessa sögu. Ég skrifaði hana. Ef bækurnar eru einhvers virði ætti það í sjálfu sér að vera nóg. Ég vil ekki taka þátt í umræðum eða ráðstefnum, verði mér boðið. Ég vil ekki taka við neinum verðlaunum, verði mér sýndur slíkur heiður. Ég vil ekkert gera til að auglýsa bókina … Viðtöl veiti ég einungis í undantekningartilvikum og þau skulu vera skrifleg.“

Samkvæmt gagnagreiningu vísindamannahópsins sker eitt höfundanafn sig úr; Domenico Starnone. Domenico er ekki bara búsettur og fæddur í Napólí, hann er líka eiginmaður ítalska þýðandans og rithöfundarins Anitu Raja, sem margir hafa hingað til talið nota höfundarnafnið Ellena Ferrante.

Fyrir nokkrum mánuðum hóf ítalskur blaðamaður, Claudio Gatti,  rannsókn á fyrirbærinu Ellena Ferrante með það í huga að komast að hinu rétta nafni höfundarins. Blaðamaðurinn gekk svo langt að rannsaka skattaskýrslur nokkura skálda sem hann hafði undir grun. Niðurstaða hans var að enginn vafi léki á að Anita Raja var höfundur Napólíseríunnar. Síðustu ár hefur bankareikningur hennar bólgnað allverulega. Inn á reikninginn lágu fúlgur sem enginn venjulegur þýðandi gat hugsanlega aflað, hvorki á langri starfsævi né með dugnaði. Auk þess hafði Anita nýlega fest kaup á glæsilegri íbúð á besta stað í Róm (höfuðborg Ítalíu) sem enginn venjuleg þýðendatuska ætti efni á.

En það eru sem sagt, samkvæmt niðurstöðu rannsóknanna, fingraför Domenico Starnones út um allt í texta Napólíbókanna. Domenico hefur líka lengi verið undir grun og margoft áður verið nefndur sem hugsanlegur höfundur. Gagnarannsóknir vísindamannanna staðfesta að hann hefur að minnsta kosti lagt hönd á plóg við ritun bókanna. „Við vitum að sjálfsögðu ekki nákvæmlega hvernig aðkoma Domenicos er að þessum bókum. En það er augljóst, og hafið yfir allan vafa, að hann hefur átt drjúgan þátt í sköpun textans,“ segir málvísindamaðurinn Michele Cortelazzo sem hefur verið einn af stjórnendum rannsóknarinnar. „Greining á skáldsögum hans sýnir að það er sterk samsvörun milli orðavals og framsetningar hjá Domenico og í Ferrante bókunum.“

Niðurstaða rannsóknarhópsins var kynnt á ráðstefnu í hákskólanum í Padua (borg í Ítalíu). Vandinn við rannsóknina er að bækur Anitu Raja eru ekki inni í greiningunni. Anita er fyrst og fremst þekkt sem þýðandi og vísindamennirnir telja ekki að texti þýðinga geti verið marktækur í samanburðinum. En Anita hefur skrifað nokkur ritgerðasöfn og verða þau brátt sett inn í textasamanburðarrannsóknirnar.

Viðbrögð Domenico Starnone  við niðurstöðum rannsóknanna eru þau sömu og ávallt þegar hann er tengdur við Napólíbækurnar: „Ég er ekki Ellena Ferrante.“

 

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.