Nú nálgast mín næsta Íslandsför. Á fimmtudaginn fljúgum við Davíð af stað með wow-air til Keflavíkur. Það verður gaman. Ég gerði þau mistök að hafa ferðina einum degi of stutta. Ég er þegar ofbókaður og margt sem ég hefði viljað gera hef ég ekki tíma til.
Ég finn að ég verð óánægður, ekki kannski óhamingjusamur, ef mér finnst ég ekki nógu afkastamikill. Fólkið í kringum mig á erfitt með að skilja óánægju mína. „Slappaðu af,“ er sagt við mig. „Hvað er það sem þú þarft að ná?“ Já. En mér finnst ég þurfa að ná ansi miklu.
En ég hef lært eitt af lífinu og það er kannski mikilvægt að hafa í huga: Innan skammst verður allt breytt; allt verður öðruvísi eftir augnablik.