Espergærde. Fátækt hyski, ríkt pakk.

Ég hlustaði aðeins á útvarp í bílnum mínum þegar ég var úti að keyra í gær. Ég kom inn í mitt viðtal við þekkta söngkonu og ég heyrði útvarpskonuna sem tók viðtalið segja:

„Ef þú gætir breytt einhverju, ef þú gætir lifað upp á nýtt, sko… hvað vildirðu hafa gert öðruvísi, ég meina…?“

„Ef ég gæti valið úr öllum hillum, meinarðu?… þú veist … þá mundi ég vilja vera mega rík … þú veist … eiga geðveikt mikla peninga … en samt, sko, vera góð, ha?… samt góð… já….“

Útvarpskonan hlær og söngkonan flissar yfir sjálfri sér.

„Er það hægt? Ha? Þekkirðu einhvern svoleiðis? Er hægt eiga böns af peningum og vera góður?“

Ég velti þessu samtali ungu kvennanna fyrir mér og spurði sjálfan mig sömu spurningar og útvarpskonan bar upp fyrir söngkonuna. Ég verð að segja að ég furða mig á öllum klisjunum sem leggjast yfir hið íslenska samfélag, og ekki skánar það með hjarðmiðlinum facebook. Dómharka, beiskja og öfund. Hefur peningaeign eitthvað með hjartalag fólks að gera? Fólk er hyski og pakk sama hversu miklar eða litlar eignir það hefur sankað að sér.

p.s. Mig dreymdi í nótt að Jón Karl vildi endilega kynna mig fyrir Jónasi Kristjánssyni sem einu sinni var ritstjóri DV. „Þú hefur örugglega gaman af honum, hann er óhræddur og fjáls hugur,“ sagði Jón Karl í draumnum. Fyndið. Aldrei fyrr hef ég vikið einni hugsun að Jónasi Kristjánssyni í lífi mínu. Og ekki veit ég heldur til þess að Jón Karl hafi nokkra skoðun á Jónasi Kristjánssyni.

pps. Fletti upp á heimasíðu Jónasar Kristjánssonar og komst að raun um að pistlar hans höfða ekki til mín. Mér finnst hann bæði neikvæður, þrasgjarn og orðljótur. Ekki fyrir mig takk.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.