Espergærde. „Monsieur Arngrímsson?“

Ég fékk tölvupóst í morgun með yfirskriftinni „Pálsson allur“.  Það tók mig ekki nema sekúndubrot að átta mig á að hér var vísað til Sigga Páls, ljóðskáldsins. Þetta voru sorgleg tíðindi og ég finn að ég sakna Sigga. Mér finnst mikill missir af honum. Þótt við Siggi hefðum ekki þekkst mjög náið höfum við átt mörg góð samtöl síðastliðin þrjátíu ár. Bæði á forlaginu á Bræðraborgarstígnum og  á götum úti. Flest samtölin hófust á orðunum „Monsieur Arngrímsson.“ Oft með upphrópunarmerki fyrir aftan. „Monsieur Arngrímsson!“ þá var Siggi einhvers staðar á labbi (sennilega þó ekki fyrir utan 101 Reykjavík)  og ég einhvers staðar á labbi (sennilega þó ekki heldur fyrir utan 101 Reykjavík) og svo barst kallið: „Monsieur Arngrímsson!“ þá vissi ég að Siggi stóð einhvers staðar í kallfæri með sitt skelmisbros á vör. Trefillinn yfir aðra öxlina.

Samtöl okkar gátu líka hafist með: „Monsieur Arngrímsson?“ Spurningarmerkið gaf til kynna að Pálsson átti mikilvægt erindi við mig. Og þá var erindið mikilvægt.

Og ekki má gleyma að Siggi kenndi mér í bókmenntafræðinni í háskólanum og kynnti mig meðal annars fyrir leikritinu Bubbi kóngur (Abu Roi) eftir Alfred Jarry. Siggi var í nefnilega í essinu sínu þegar hann sagði frá leikritinu sem var frumsýnt í París árið 1896 og vakti fullkomið hneyksli flestra áhorfenda enda nýstárlegt og afkáralegt verk sem boðaði nýjan tíma í frönsku leikhúsi. Megnið af námskeiðinu fór í að ræða um leikritið og Siggi flutti skemmtisögur af Alfred Jerry.

Tölvupósti morgunsins fylgdi þetta ljóð Sigga. Ansi gott.

Leigubíll

Það er hægt að biðja
Leigubílstjórann að hækka útvarpið
Skrúfa upp rúðuna
Lækka miðstöðina

Eða
Lækka útvarpið
Skrúfa niður rúðuna
Hækka miðstöðina
En
Tárin halda samt áfram að leita
Veðurstofukonan í útvarpinu
Hækkar og lækkar
Rúðan sömuleiðis þurr
Það hitnar og kólnar
Mælirinn tifar og tárin
Halda áfram að leita fram
Þar til þau komast í röddina
Sönglag komið í útvarpið
Tillitslaust tilgangslaust sönglag
Það streymir kalt loft
Inn um opna rúðuna
Flýgst á við heitt miðstöðvarloftið
Áfram tifar mælirinn aldrei fullur
Áfram er haldið

Enginn segir neitt
Ekkert er hækkað né lækkað
Sönglagið heldur áfram
Tárin hvíla á röddinni
Alla leið út á flugvöllinn

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.