Í lofti yfir Danmörku. Við Cave á bílunum okkar

Ho! Er í fluginu á leið frá CPH til REY. Davíð situr við hlið mér. Þetta verður góð ferð.

Á fimmtudag förum við Davíð upp í Hvalfjörð að kíkja á jarðir, við erum að safna jörðum. Jón Kalman ætlar að keyra okkur. Fimmtudagsmorgun fer í samtöl við bændur. Eftir hádegi ætlar Jón Kaldal að keyra okkur á fund hinna HALA í Hvammi undir Eyjafjöllum. HALAveisla. Það verður gífurlega ánægjulegt. Og gaman að allir 8  HALAR geta mætt undir Eyjafjöllin.

En nú er flugfreyjan orðin fúl út í mig og vill að ég slökkvi á tölvunni. Það geri ég…

Horfði á Nick Cave heimildarmyndina 20.000 dagar á jörðinni í fluginu. 20.000 dagar og ég dró fram vasareikninn. 54 ár.

Þetta er frábær heimildarmynd og kallaði fram minningar frá tónleikunum með Cave í New York í sumar. Og satt að segja langar mig til að hitta Cave eftir að hafa horft á kvikmyndina. Ég ímynda mér að við gætum orðið góðir vinir. Hann er auðvitað útávið ég er inniávið. En það gerir ekkert til. Hann er áhugaverður og ég nenni vel að hlusta á hann. Ég þarf ekki að segja svo margt. Þetta ímynda ég mér. Hann keyrir á sínum Jaguar og keyri á eftir honum í mínum Audibíl og við stígum út úr bílunum á sandströndinni við Brighton. Við göngum saman í sandinum. Hann á glansskóm og ég á fínu skónum sem ég keypti á Hverfisgötunni. Hann í sínum svörtu jakkafötum þótt að það sé stekur vindur af hafi. Við göngum hlið við hlið og hann bandar út höndum í frásögn sinni. Ég með mínar hendur í vösum þegar við röltum meðfram sjónum.

Við Cave erum báðir áhugamenn um dagbækur. Cave skrifar dagbók, ég skrifa dagbók og hjá okkur báðum fylla dagbókarskrif okkar töluvert. Báðir skrifum við látlaust. Sumt birtist annað hverfur. Hver þekkir eigin sögu? Hún er í raun óskiljanleg, þegar maður er sjálfur miðpunktur sögunnar. Reykur og speglar. Þoka og villuljós. Sagan verður fyrst skiljanleg þegar ég flyt frásögnina um mitt eigið líf. Allar litlu, dýrmætu skemmtisögurnar sem ég segi aftur og aftur yfir sjálfum mér og öðrum. Fyrst bý ég til frásögnina um sjálfan mig og svo passa ég upp á að sagan hverfi ekki inn í myrkur  og eyðingarmátt gleymskunnar. Varðveiti hana og sjálfan mig.

 

 

dagbók

Skildu eftir svar