Reykjavík. Listi yfir fólk á vegi mínum 2

Við Davíð vöknum snemma á Hagamel í Reykjavík. Við villtumst í tímanum og opnuðum augun þegar það er morgun á meginlandi Evrópu. Sandra & co sváfu í næsta herbergi.  Við létum það ekki á okkur fá og læddumst fram og helltum okkur hljóðlaust upp á kaffi í myrku eldhúsinu.

Í gær hafði ég lofað einum tryggum lesenda Kaktusins að ég skrifaði lista yfir það sem við köllum „hitt fólk“.

Í gær fórum við Davíð á Kaffi Vest á meðan við biðum eftir að Sandra væri búin að vinna. Við höfðum ekki setið lengi þegar Jón Ásgeir, hönnuðurinn,  kom vopnaður 1TB hörðum diski. Á diskinum voru allar kápur sem hann hefur unnið fyrir mig síðustu 15 ár. Og það eru meira en hundrað bókakápur á þessum diski. Það var gaman að hitta á Jón Ásgeir og ekki laust við að tilfinningasemin bæri okkur ofurliði þegar öll terabætin voru afhent. Við höfum unnið saman örugglega í 20 ár og alltaf hefur ljósið skinið á milli okkar. Ekkert nema gleðin að vinna með Jóni Ásgeiri sem nú hættir sem grafískur hönnuður.

Inn á Kaffi Vest kom líka framkvæmdastjóri Rithöfundasambands Íslands Ragnheiður Tryggvadóttir og við spjölluðum um Rithöfundasambandið ,gleði hennar við að vinna í Gunnarshúsi og lengd þeirra tímabila sem er milli einhvers konar uppþota hjá Rithöfundasambandinu.

Inni á Kaffi Vest var líka kona sem veifaði mér. Það tók mig eitt augnablik að grafa í huga mér hver þessi kona væri. Hún sat með gluggann og birtu dagsins í bakið svo ég greindi ekki nógu vel hvernig andlitið leit út. En skyndilega kom nafnið upp í hugann: Guðrún Kristjánsdóttir, blaðakona. Ég hef svo sem aldrei þekkt þessa duglegu konu, við heilsumst á förnum vegi, en ég man að á tímabili sá ég hana oftar en á öðrum tímabilum þar sem einn af höfundum forlagsins míns var í einhvers konar sambandi við hana, sambandi sem verkaði frekar þunglamalega á mig.

Á göngu eftir Ljósvallagötu mætti ég Gunnari Þorra Péturssyni og konu hans, hinum hlédræga kvikmyndaleikstjóra Ásu Helgu Hjörleifsdóttur. Gunnar Þorra hef ég þekkt lengi og ég er svo heppinn að geta sagt að Gunnar Þorri hafi verið starfsmaður minn. Það var fyrir mörgum árum þegar ég bauð Gunnari að koma og hafa frjálsar hendur á forlaginu. Hann fékk ákveðna upphæð og svo gerði hann bara það sem hann vildi eins lengi og hann vildi. Markmiðið var að kynna haustútgáfu forlagsins það árið. Gunnar Þorri vann um nætur á meðan ég svaf. Ég vann á daginn á meðan Gunnar Þorri svaf. Samskipti okkar fóru fram á litlum gulum miðum sem Gunnar límdi upp á viðeigandi stöðum á forlaginu. Þegar ég kom til vinnu stóð  til dæmis á ljóritunarvélinni, skrifað á gulan miða með handskrift  Gunnars Þorra: „FÆ EKKI VÉLINA Í GANG, EITTHVAÐ ER EKKI Í LAGI.“  Eða á tölvunni minni stóð: „EKKI LOKA SKJALI MERKT GUNNAR.2“ og svona lágu gulu miðarnir út um alla skrifstofu, á veggjum, á borðum og vélum. Í gær var Gunnar Þorri að flýta sér í leikhús svo við skiftumst á fáum setningum meðal annars um ólífuuppskeru og ræktun á ítalskri jörð.

Konu hans Gunna, Ásu Helgu þekki ég ekki, en það gerir Sandra dóttir mín og þær spjölluðu saman. Mér fannst bara fyndið að vita að þarna færi dóttir Hjöra sem ég þekkti á námsárum mínum í Þýskalandi.

Í gækvöldi sendi ég bóndanum í Hvalfirðinum, þeim sem selur jarðir, tölvupóst þar sem ég minnti hann á komu mína. „Sæll Þorvaldur, ég verð hjá þér um tíuleytið á morgun. Allt gott?“

Ég fékk ekkert svar frá honum svo ég ákvað að hringja:
„Sæll Þorvaldur, þetta er Snæbjörn…“
„Blessaður, Snæbjörn. Þakka þér fyrir að hringja. Ég sá tölvupóstinn frá þér en ég vissi bara ekki hvernig ég átti að svara honum. Ég kann ekkert á tölvur… Konan er ekki heima en hún kann betur á þetta.“

Afstaða fólks til e-mails hefur af einhverjum undarlegum ástæðum verið til umræðu hjá mér undanfarna daga. Númi, táningsstrákurinn minn, hefur sterkar skoðanir á tölvupóstum. „Númi? Notar þú ekki e-mail?“ spurði ég dag einn.
„E-mail?“ og ég heyrði henykslunartóninn langar leiðir. „Hver notar e-mail?!“
„Ég,“ sagði ég og reyndi að hljóma stoltur.
„Það er enginn sem notar e-mail lengur!“
„Hvað notarðu þá?“
„SnapChat og Messenger.“

Af þessu tilefni spurði ég enn einn son minn, Sölva Dún, um notkun tölvupósts þegar við keyrðum saman upp í Hvalfjörðinn. „Sölv, notar þú ekki e-mail?“
„Ha, jú?“
„Nei, bara af því að Númi segir að enginn noti lengur e-mail.“
„Mér finnst e-mail, eiginlega besti samskiptamátinn. Það er alla vega minn uppáhaldssamskiptamáti. Ég hegg textann niður í skúlptúr. Sem sagt les-skúlptúr,“ hér talar listamaðurinn.

Nú þarf ég að ljúka dagbók dagsins: Fyrir utan býður Kaldal okkar Daviðs, á þýskum bíl og brátt höldum við af stað út úr bænum með stefnuna á Hvamm undir Eyjafjöllum. Yo.

 

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.