Reykjavík. Latur maður, lítil hey

Sólarhringur í Hvammi undir Eyjafjöllum að baki. Við vorum allir átta og Davíð minn. Eiríkur útvarpsmaður, Effi, ljósmyndari, skáldið Kalman, Kaldal módel, Maggi bóndi, Maggi leiðarahöfundur, Þorsteinn J. fjölmiðlagaur og ég sjálfur. Við vorum allir sammála um að endurtaka þennan viðburð árlega. Allt var gott, Gaman hve margir fluttu skemmtilegar, litlar einkadagskrár um Sigga Páls. Hvar annar staðar í átta manna hópi á föstudagskvöldi gæti slíkt gerst?

Ég var búinn að lofa lista yfir hitt fólk, en fyrst: Ég lærði nýjan málshátt: Latur maður, lítil hey.

Ég hitti Jón Karl Helgason í dag. Ég þreytist ekki á að dásama hvað ég er heppinn að þekkja  slíkan mann. Við hittumst á frekar slöppu kaffihúsi sem heitir Iða og er andspænis Borgarbókasafninu. Við drukkum kaffið okkar og ákváðum svo að gera eins og persónur í sögu eftir Ólaf Jóhann eldri að ganga í kringum Tjörnina og fara yfir stöðu mála.

Annars var ég í bakaríi í gær til að kaupa snúð fyrir Davíð. Honum finnst íslenskir snúðar alveg dýrmætir. Þetta var bakaríið í Suðurveri. Á meðan ég bíð eftir afgreiðslu smeygir sér maður með gleraugu fram hjá mér til að teygja sig í eitthvað. Hann hallar sér svo makindalega upp að afgreiðsluborðinu og horfir á mig með ísmeygilegu brosi. Ég brosi bara á móti. Hann hættir hvorki að horfa á mig né brosa. Eins og hann sé að reyna að átta sig hver ég sé. Svo ég segi:
„Sæll.“
„Sæll,“ segir hann.
„Þekkjumst við?“ spyr ég.
„Nei,“ segir maðurinn. En bætir svo við: „En ég kannast við andlitið á þér.“
„Hvað heitir þú? Ég heiti Snæbjörn.“
„Já, ég heiti Þröstur og ég hitti þig á bókaforlagi vestur í bæ.“
Ég veit ekki hver þessi maður er.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.