Keflavík. Uppgjöf snákaolíusölumannsins

Þau eru frekar erfið morgunflugin frá Íslandi. Við feðgar vorum vaknaðir klukkan 3:13 í nótt og svo þurftum við að hraða okkur fótgangandi í rokinu yfir á BSÍ til að ná flugrútunni til Keflavíkur klukkan 04:00. Það tókst.

Nú sitjum við á veitingasölu Jóa og ávaxasafans á Keflavíkurflugvelli ásamt öllum hinum útlendingunum sem vilja yfirgefa landið í hasti. Við Davíð getum verið ánægðir með afköst ferðar okkar. Eitt af stóru afrekunum voru kaup á tveimur síðustu minningarbókum Sigurðar Pálssonar í hinni skelfilegu bókabúð Eymundsson við Austurstræti. Leiðinlegt að sjá öll hnignunarmerkin á þeirri bókabúð/ mingjagripaverslun.

Ég var svo sem ekki hissa þegar ég las að Gunnar Smári, snákaolíusölumaðurinn mikli, hefði afboðaði komu sína og Sósíalistaflokks Íslands til Alþingiskosninga. Stuðningurinn var víst ekki mælanlegur í skoðanakönnunum. Það var líka eitthvað ólánlegt, fannst mér, við alla þessa predikun Gunnars Smára um upprisu hins meðvitaða íslenska verkalýðs undir hans forystu. Hann er mælskur, hann Gunnar Smári, hann getur selt, en maður kaupir ekki af honum aftur þegar maður er búinn að kaupa einu sinni.

Annars vorum við Davíð svo ánægðir með Hvalfjörðinn (fyrir utan Grundartangaverksmiðjuna sem er aldeilis mikið lýti á þessum fallega firði) að við kaupum sennilega jarðarskika í firðinum af bónda og förum að byggja nokkur glæsihús. Nú tek ég fram hamar og sigð og bretti upp ermar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.