Kominn aftur til Danmerkur og sestur á stólinn minn og horfi út á lestarteinana fyrir utan skrifstofugluggann. Ánægjulegt að sjá tónlistmanninn (sem ég kalla svo) standa með taupokann sinn á lestarpallinum og bíða eftir lestinni til Kaupmannahafnar. Það er eftirvænting í svipnum. Kannski er hann að fara æfa með kammerhljómsveit?
Á göngu minni til vinnu í morgun hlustaði ég á mitt podcast. Ég geng, ég hlusta. Ég var þó seinni á ferðinni en venjulega og hitti því aðra en ég er vanur. Sá til dæmis ekki konuna með hundinn. Í podcasti dagsins, útvarpsþættinum Lestinni, spjölluðu Páll Balvin og Pétur Gunnarsson við Eirík og minntust skáldsins Sigurðar Pálssonar. Ég vildi vera búinn að hlusta á þennan þátt fyrir löngu, en ég er aðeins á eftir áætlun. Fyrirtaks spjall. Mér fannst sérstaklega gaman að heyra í Pétri vegna þess hve orðfæri hans er fallegt. Hann hefur sérstök tök á íslenskri tungu sem sést kannski best í þýðingum hans, bæði Proust þýðingunni og Frú Bovary þýðingunni. Líka gaman að heyra hann lýsa hinum unga og seinþroska Sigga með alpahúfuna.
Zadie Smith er í viðtali í dag í veftímatiti sem ég les oft. Hún hefur oft þungar áhyggjur af hinum mikla bergmálshelli, félagsmiðlunum svokölluðu, og hún sér Facebook og Twitter flest til foráttu. „Ég vil geta veitt mér það að hafa á röngu að standa án þess að þurfa að hlusta á ragn og formælingar. Ég vil hafa mínar tilfinningar í friði, líka þær sem eru óviðeigandi, líka þær sem eru rangar. Mig líkar ekki þessi populismi sem er á Facebook og Twitter. Ólíklegasta fólk – líka það sem ég hafði talið sterkar og frjálsar sálir – selur sjálft sig fyrir ódýr like og viðrar skoðanir sem augljóslega eru líklegar til að fá mörg húrrahróp frá facebookhjörðinni. Það er ekki margt gott sem kemur út úr þessu.“
Þegar ég hugsa um orðið bergmálshelli kemur í huga mér herbergi eins æskuvinar míns. Vinar? Jú, sennilega vinar. Hann var eldri en ég og við vorum þó aldrei mikið saman. Sennilega vegna þess að ég skildi henn ekki og hann átti til að draga mig inni í eitthvað sem ég hafði ekki áhuga á. Oft birtist hann bara upp úr engu og dró mann með sér. Herbergið hans var svartmálað með svörtum gluggatjöldum. Ljósið sem náði að smjúga inn var drekkt í öllu svartamyrkri herbergisins. Og hann hlustaði á Black Sabbath, hljómplötuna Paranoid. Hann taldi mér trú um að inni í soundtracki plötunnar hefðu hljómsveitarmeðlimir falið æviforna dáleiðslutóna sem kölluðu fram hið illa hjá þeim sem hlustaði. Ég var hræddur við hið illa í mér og vildi ekki á nokkurn hátt kalla það fram. En hann var eldri en ég og þrátt fyrir veikburða mótmæli mín setti hann vínylplötuna á fóninn með hátíðlegum hreyfingum. Eins og í helgiathöfn. Inni í þessu kolsvarta herbergi, þessum bergmálshelli, þvingaði hann mig til að hlusta. Hann skrúfaði hljóðstyrkinn eins hátt upp og hann gat. Ég fann hvernig hljóðbylgjurnar skullu á mér, ég var barinn af djúpum dáleislutónum sem áttu að vekja hin illu öfl inni í mér. Maður getur lokað augum, nefi og munni. En að loka eyrum svo enginn sjái er næstum ómögulegt. Á meðan vinur minn spilaði Black Sabbath sönglaði ég inni í mér, sem mótlyf við dáleiðslutónum Black Sabbath, barnasálminn Ó Jesú bróðir besti. Það var eina vopnið sem mér fannst duga. Hin illu öflu náðu ekki tökum á mér. Hverju get ég þakkað það? Það eru margir möguleikar.