Espergærde. Sala bóka minna í Japan.

Ég hef aldrei verið sérstaklega áhugasamur um Haruki Murakami, ég les bækur hans en verð ekki jafn uppnuminn og margir yfir dularfullu köttunum hans, dimmu jazzbörunum, draugakvendunum og karlmönnum í tilvistarkreppu. Murakami er ekki minn maður eins og svo margir aðrir rithöfundar. Mér finnst hann fínn. Það sama má segja um Raymond Carver. Ég les Carver og sé að hann er á sinn hátt áhugaverður og flínkur en oft hugsa ég þegar ég hef lokið lestri á einni eða annarri af sögum hans. Æ, var þetta ekki svolítið trivialt.

Murakami og Carver. Ég hef hitt Murakami sjálfan en ekki Carver. Við tveir, ég og Murakami sátum einu sinni saman í þýskum bíl. Ég keyrði og hann sat við hliðina á mér. Japanski rithöfundurinn var rólegur maður, sagði fátt, og var áberandi kurteis. Ég man að ég tók eftir að hann var klæddur í óvenjufínan tvíhepptan, bláleitan jakka með gullhnöppum. Hann var ekki blaðrari og heldur ekki óþægilega þögull, heldur var yfir honum ára rósemdar sem smitaðist út í bílinn. Murakami sagði mér frá því í bíltúrnum, á afar hæglátan hátt, að hann hefði verið með Raymond Carver á heilanum mjög lengi. Hann hafði bara lesið tvær af sögum hans, (mig minnir að það hafi verið sögurnar Where I’m Calling From og So Much Water So Close to Home) þegar hann varð gífurlega upptekinn af höfundinum Raymond Carver og var viss um að hann væri ritsnillingur.

Eftir þessi fyrstu kynni af skáldskap Raymond Carver las Murakami allt sem hann komst yfir og fór að þýða sögur höfundarins á japönsku. Allar þær Carver-sögur sem Murakami fann snaraði hann yfir á ensku. Carver átti hug hans allan og á endanum gerðist hann svo djarfur að setja sig í sambandi við smásagnahöfundinn til að spyrja hvort þeir gætu hist. Carver tók því vel að hitta japanska þýðanda sinn og Murakami pantaði því flug til New York fyrir sig og konu sína. Þetta var í fyrsta sinn sem Murakami kom til Bandaríkjanna og hann ákvað að nota ferðina fyrir tvennt; að fara til Princeton því þar hafði Scott Fitzgerald gengið í skóla og hitta Carver á heimili hans í Washington. Carver tók vel á móti þeim hjónum og snerist samtalið þeirra í heimsókninni víst aðalega um sölu bóka Carvers í Japan. (Murakami glotti þegar hann sagði þetta.) Murakami hafði þá sjálfur fengið nokkar skáldsögur útgefnar, sem þó höfðu ekki verið þýddar á ensku. Murakami upplýsti Carver aldrei um að hann væri sjálfur rithöfundur. „Ég hefði líklega átt að segja honum það,“ sagði Murakami.

Í stuttu máli þá fór vel á með Murakamihjónunum og Raymond Carver. Svo vel að Carver skrifaði ljóð eftir fund þeirra sem hann tileinkaði Murakami. Carver lofaði meira að segja að heimsækja þau til Japan. Murakami sagði mér að við heimkomu þeirra hjóna hefði kona hans gert ráðstafanir til að hýsa bandaríska smásagnahöfundinn. Á heimili þeirra væri stærð rúmanna miðuð við japanska líkamsbyggingu en Carver var óvenju stór.  Hún hefði því pantað rúm sem var nógu langt svo að sá stóri maður, Carver, gæti passað í rúmið og sofið vel í heimsókninni. Carver kom þó aldrei. Hann lést árið 1989, aðeins fimmtíu ára úr lungnakrabbameini, án þess að fá nokkurn tíma að vita að Murakami var líka rithöfundur.

dagbók

Ein athugasemd við “Espergærde. Sala bóka minna í Japan.

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.