Espergærde. Samkoma hinna útvöldu

Einu sinni hitti ég mann, framkvæmdamann sem var allur í skipuleggja það sem hann kallaði „event“. Eitt af þeim „eventum“ sem hann vildi svo gjarnan koma á lappirnar var fundur fjögurra stærstu listamanna heims. Láta þá hittast í fallegum sal í Evrópu, hann hafði Flórens í huga og einn af hinum fögru sölum Palazzo Vecchio (Gömlu höll). Mér fannst það alltof stórir salir og benti honum á að hittast á litlum stað sem var meira anonym.

Hugmyndina fékk hann þegar hann las um fund sem enski ríkmaðurinn Sydney Schiff hafði komið í kring. Hugmynd hans var að kalla saman fjóra mikilvægustu listamenn samtímans og láta þá hittast í einni stofu. Þetta var árið 1921. Til fundarins voru boðaðir Pablo Picasso, Igor Stravinsky, Marcel Proust og James Joyce. Af einhverju ástæðum komu William Carlos Williams og Ford Madox Ford líka á fundinn en þeir héldu sig til hlés þegar hinir fjórir stóru fiskar létu sjá sig.

Loks náðist að kalla listamennina saman og var fundurinn haldinn þann 19. maí 1922 á glæsihótelinu Hôtel Majestic í París. Marcel Proust hafði verið illfáanlegur til að koma því hann vildi helst af öllu bara halda kyrru fyrir í svefnherberginu sínu. Hann hafði sérstaka ímugust á veislum sem haldnar voru til að safna saman fyrirfólki. „Ekkert skemmtir mér minna en það sem kallast „útvalinn“.  Hann lét sig þó hafa að mæta til fundarins eftir nokkra eftirgangsmuni gestgjafans.

Fyrstir til að birtast í hótelanddyrinu, og mjög tímanlega, voru Pablo Picasso og Igor Stravinsky. Þeir voru glaðir og upp með sér að vera boðaðir til jafn mikilvægrar samkomu og fundur hinna stóru listamanna var í þeirra hugum. Joyce kom nokkuð seinna, bæði fullur, skítugur og óstöðugur á fótunum. Hann var eins og flækingur til fara. Proust, eins og aðrir sem telja sig aðal, kom síðastur allra og of seint. Elegant, klæddur svörtum jakkafötum með hvíta hanska á höndunum og fölur eins og tungl á eftirmiðdagshimni. Proust hafði um þessar mundir nýlega gefið út bókina Sódómu og Gómorru sem hafði bæði vakið mikið umtal og skelfilega hneykslan í París. Hann var því mikilvægasti gestur kvöldsins. Það passaði James Joyce illa. Tungur samtímans töldu auk þess Proust meiri listamann en höfund Ulysses,  sem var til þess að í huga James Joyce var Proust samstundis mikill höfuðóvinur.

Samtöl þessara tveggja manna, Proust og Joyce, átti að vera hátindur samkomunnar. Þegar þeir loks yrtu hvor á annan (Joyce hafði ekki sagt orð allt kvöldið og hafði falið andlitið í höndum sér undir borðhaldinu) þagnaði samkoman og drakk hvert orð sem hraut af vörum stórmennanna. Joyce sagði síðar samtal þeirra hefði eiginlega ekki verið annað en nokkur „nei“. „Gestgjafinn spurði Proust hvort hann hefði lesið þetta og þetta í Ulysses og kinkaði kolli til mín um leið, því ég skyldi taka eftir því sem Proust sagði um verkið. Proust svaraði því neitandi. Proust spurði mig svo í framhaldinu hvort ég þekkti þennan eða þennan hefðarmann en ég svaraði því neitandi. Lengra varð samtalið ekki,“ er haft eftir Joyce.

Þessi hálfmisheppnaði fundur heldur ekki vini mínum frá því að reyna að koma samskonar fundi í kring. Það eina sem veldur honum hugarangri er úrvalið á listamönnunum. Hann hefur þó ákveðið að hópurinn skuli vera samansettur af mikilvægasta arkitekt samtímans, mikilvægasta kokki samtímans, rithöfundi og mikilvægasta tónlistarmanni samtímans. Hverjir eru þeir þá þessir mikilvægustu? spurði ég. Hann hafði sett saman langan lista með örugglega 30 eða 40 nöfnum sem hann skyldi velja úr. Á listanum var aðeins einn Íslendingur.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.