Ef allt hefði verið samkvæmt áætlun sæti ég nú og puðaði í jóga. En eins og sífellt kemur upp í huga mér: Allt verður öðruvísi eftir augnablik. Sem sagt ég puða ekki á jógamottu núna heldur sit ég á skrifstofunni og horfi út á brautarpallinn. Lestin er nýfarin svo það sitja bara þrjár manneskjur hér fyrir utan gluggann. Sá sem stendur næst glugganum hefur buxurnar svo langt niður á hæla að bleikar blómanærbuxur á hans feita rassi blasa við mér. Ekki fögur sjón.
Í morgun gat ég bara ekki hugsað mér alla þá þjáningu og alla þá örvæntingu sem fylgir þessum fínu jógaæfingum sem lagðar eru fyrir mann. Því ákvað ég að arka í vinnuna í stað þess að þjást yfir jóga svona eldsnemma föstudagsmorguns.
Ég reyni að fylgjast með því sem gerist á hinum íslenska bókamarkaði en þar finnst mér ríkja töluvert logn einmitt þegar mest er þörfin að spýta í lófana. Kannski eru allir að bíða eftir að jólabækurnar komi úr prentun, en það er enginn spirrit merkjanlegur frá Íslandi hingað til Danmerkur. Í fyrra vann Benedikt forlagið spirritverðlaunin, þar var líf og fjör. Kannski var það nýjabrumið í kringum forlagið sem hjálpaði. Sjáum til hvað gerist. Hingað berast mér handrit frá unghöfundum: Jónas, Halldór, Högni, María, Adolf… Ég veit ekki hvort bækur þeirra allra séu á leið út í bókabúð í haust. Þetta er allt mjög öflugir höfundar og það er kraftur í þessu unga fólki og ég vona að forlögin setji fútt og líf í kringum bækurnar síðustu mánuði ársins.
Í gær hlustaði ég á ágætt danskt podcast. Ungur blaðamaður tók að sér að hafa upp á konu sem hafði í meira en tuttugu ár stundað svindl og blekkingar, sérstaklega á kristnum gistiheimilum, bæði í Danmörku og Noregi. Sagan af þessari konu er spennandi og spennandi að fylgjast með blaðamanninum fylgja fótsporum konunnar. En eins og svo oft í öllum tegundum af frásögum, skáldsögum, kvikmyndum…, er oft erfitt að binda endahnútinn, finna hinn góða endi. Forsendurnar voru góðar, athyglisverð uppbygging en svo slappur endir. Í því liggur vandinn.